10.09.1915
Efri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Karl Einarsson; Jeg var ekki við, er hv. þm. Ísaf. (S. St.) vjek spurningu til vor lögfræðinganna, um það, hvort það væri nokkur dæmi þess í lögum, að menn bæru hegningarábyrgð á gjörðum annara.

Jeg er enginn lagaþýðari, og þar sem hæstv, ráðherra er viðstaddur, þá vil jeg beina spurningunni til hans, en skal þó taka fram, að þetta mun ekki alment, en nefna að eins eitt dæmi, sem mjer er sjerstaklega kunnugt, því jeg þarf oft að dæma dóma samkvæmt þeim lögum.

Það liggja — eins og kunnugt er — háar sektir, 1000–4000 kr., við brotum gegn botnvörpuveiðalögunum, og auk þess er afli og veiðarfæri upptækt. Auk þess má dæma skipstjórann í fangelsi, þó að hv. neðri deild feldi í fyrra frv. fyrir þá sök, að hún vildi ekki leggja við fangelsisvist, og hjeldi að það væri ekki í lögum, sem það var og er. Hún vildi þá ekki hlusta á það, sem henni var sagt, trúði því ekki eða skildi það ekki. Hjer eru há viðurlög, eins og jeg hefi bent á. En nú er því svo varið, að skipstjóri fær sína hegningu, þó hann sje t. d. sofandi og stýrimaður stýri á meðan inn í landhelgi og veiði þar. Og það hefir stundum verið upplýst við prófin, að svo hefir verið, en skipstjórarnir samt dæmdir. Jeg hefi sjálfur dæmt marga slíka dóma, og þó þeim hafi ekki verið áfrýjað, þá veit jeg, að þeir hefðu staðist við áfrýjun.

Jeg skal ekki um það segja, hvort skipstjórinn yrði dæmdur í fangelsi, ef það sannaðist, að hann væri ekki sekur, það hefir ekki komið fyrir, en víst er um það, að það er formlega rjett, eftir lögunum.

Að þetta er svo, að skipstjóri hjer ber ábyrgð jafnvel á annara verkum, kemur vafalaust af því, að það er litið svo á, að það sje skipið, sem brotið hefir framið, ef svo mætti að orði kveða, enda má gjöra fjárnám í skipinu fyrir sektunum, og er það það regla, sem annars ekki gildir um hegningardóma, þar sem sektirnar verða að afplánast, ef þær eru ekki borgaðar, en vanalega ekki hægt að gjöra fjárnám fyrir þeim.

Það vill nú svo til, að nákvæmlega sama á sjer stað í bannlagafrv. því, sem hjer liggur fyrir. Það er skýrt tekið fram í 14. gr. bannlaganna, að fjárnám má gjöra á skipinu fyrir sektum, og því tel jeg ekkert varhugavert að samþ. það, að skipstjóri beri ábyrgð á þessum brotum.