10.09.1915
Efri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Kristinn Daníelsson:

Jeg get ekki neitað því, að jeg hefi heyrt það á máli manna, að margir hafa haft á móti setning þeirri, er hv. þm. Ísaf. (S. St.) vill fella niður og flytur um það brtt. á þgskj. 907. En aðalástæðan, sem jeg hefi heyrt menn hafa hvern eftir öðrum fyrir þessu, er gamla kýmnissagan um að lemja bakara fyrir smið. (Sigurður Stefánsson: Eða forseta fyrir skrifara.) Svoleiðis orðaði hv. þm. Ísaf. (S. St.) það ekki áðan. En þó að slíkar samlíkingar geti stundum verið skýrandi, þá eru þær oft ekki annað en það, sem á útlendu máli er kallað „phrase“, eða innihaldslaust orðtak, sem ekkert sannar, af því að það á ekki við, og svo hygg jeg nú muni vera um þetta.

Hv. þm. Ísaf, (S. St.) vildi fá hliðstætt dæmi. En jeg held að okkur bannmönnum þurfi síst að bregða, þótt sagt sje, að eitthvað sje engu hliðstætt í þessum lögum; við höfum ekki úr svo háum söðli að detta með það, því að það hefir einatt verið sagt, að bannlögin sjálf sjeu ekki hliðstæð við nein lög, svo þau standa víst eins fyrir þetta. En það eru svo mýmörg tilfelli í lífinu, þar sem menn verða að einhverju meira eða minna leyti að bera ábyrgð á öðrum. Embættismenn verða að bera ábyrgð á starfsfólki sínu (dómur fyrir því í Danmörku), foreldrar á börnum sínum, húsbændur á hjúum sínum, og nú hafa tveir góðir lagamenn sýnt hjer í deildinni, að þetta er ekki heldur óhliðstætt við það, sem á sjer stað í lögum vorum og löggjöf.

Annað, er jeg vildi minnast á, var það, að hv. þm. Ísaf. (S. St.) hafði að brigslum um okkur bannmenn, að þetta væri kjarni frumvarpsins eða greinarinnar. En þetta er ofmælt, þó að okkur þyki þetta hafa mikla þýðingu og skifta miklu máli fyrir bannlögin. Því að mikils er vert um framferði skipstjóranna; það eru þeir menn, sem mestu geta valdið til að smygla inn áfengi, og liggur í augum uppi, að þeir hafa aðhald í því að eiga að bera ábyrgð á öllum flutningi, og ekki æskilegt að þeir gætu komið henni yfir á aðra, ef þetta væri felt, hugsað sem svo, að gott væri að hafa barn til blóra.

Þar sem hv. þm. var að tala um, að þetta yrði til að draga úr ábyrgðartilfinningu skipstjóra, þá hygg jeg að það yrði gagnstætt. Jeg hygg að flestir hásetar yrðu varkárari og vildu ekki að skipstjóri þeirra liði fyrir þeirra brot. Og skipstjórinn mun hafa betri gætur á að lögunum sje hlýtt, þegar hann ber sjálfur; ábyrgðina. Jeg vil því mæla á móti því, að þessi brtt. verði samþykt, hvað sem hinu líður, hvort málið hrekst á milli deilda eða ekki. Eingöngu af því, að jeg tel hana til spillis fyrir málið sjálft.

Öfgakent þótti mjer það hjá hv. þm. Ísaf. (S. St.), að frumvarp þetta sje að eins til þess að spilla fyrir bannlögunum. Með því er þó reynt til að bæta úr ýmsum göllum, er einmitt hafa komið í ljós. Og þó að, það sje ekki eins óheppilegt og skyldi, þá verður því þó ekki neitað, að það bætir úr helstu göllunum, einnig að dómi þeirra, sem mest afskifti hafa af framkvæmd bannlaganna.