10.09.1915
Efri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Björn Þorlákss.):

Jeg leyfi mjer að þakka hv. 6. kgk. (J. Þ.) fyrir þau vinsamlegu orð, sem hann sendi mjer. Hann kannaðist við það, að hann bæri ábyrgð á bannl. 1909, en að hann hefði ekki getað lagfært mestu vitleysurnar í þeim. Jeg var svo heppinn að vinna með honum hjer á þingi í því máli, svo að jeg vissi hvern hug hann bar til laganna og að hann greiddi nauðugur atkv. með lögunum. Jeg held því, að rjettara hefði verið fyrir hann að vera alveg á móti þeim, fyrst hann var það í hjarta sínu. En hann var svo háður kjósendum sínum, að hann sá sinn kost vænstan að greiða atkv. með lögunum. Nú þarf hann ekki að eltast við vilja margra kjósenda, því kjósandinn er ekki nema einn. Og við vitum að þótt við báðir sjeum nefndir konungkjörnir þingmenn, þá er það í raun og veru ráðherrann, sem útnefnir okkur. Það er því undarlegt, að hann skuli ekki fara að vilja ráðherrans í þessu efni, því hann hefir sýnt með fram- komu sinni í hv. Nd., að hann er bannlögunum mjög fylgjandi.

Háttv. 6. kgk. (J. Þ.) hjelt því fram, að reynslan á bannlögunum hefði verið herfileg hingað til. Jeg þarf ekki að eyða mörgum orðum, til þess að mótmæla þessu, því að hv. þm. Skagf. hefir þegar tekið af mjer ómakið, og sýnt að þetta hefir ekki við nein rök að styðjast. Þingmaðurinn vildi styðja orð sín með ummælum í blaðinu Templar, þess efnis, að mentamenn landsins væri miklu meiri drykkkjumenn. en þeir hefðu áður verið. Jeg vil ekkert. segja um það, hvort þetta er rjett hermt eða ekki eftir Templar, þó jeg leyfi mjer að efast mikillega um það. Minsta kosti þykist jeg þess fullvís, að ungir mentamenn hjer í Reykjavík eru nú miklu meiri reglumenn en fyrir nokkrum árum. Vitanlega er þar misjafn sauður í mörgu fje, eins og gengur, og dæmi eru til þess að einstaka ungir mentamenn, sem eru starfsmenn þingsins, hafa komið ölvaðir hjer í þingið. En það virðist ekki ástæða til þess, að kosta of þungum steini á þá fyrir það, sjerstaklega er þess er gætt, að þingmenn hafa stundum gjört hið sama, enda eiga forsetar jafnan að átelja slíkt. En algjörlega er skakt að leiða af þessu þá ályktun, að ungir mentamenn sjeu yfirleitt drykkjumenn.

Jeg fæ ekki betur sjeð, en að reynslan af bannlögunum hafi hingað til verið næsta gleðileg. Lögin eru þegar farin að verka talsvert, bæði í kauptúnum og sveitum, sjerstaklega í sveitum. Vitanlega hafa þau verið brotin, og er mörgum mönnum gjarnt til að mála þau tilfelli með afarsterkum litum. En það er ekkert tiltökumál, þó bannlögin sjeu brotin, því að svo er um öll lög.

Jeg ætla nú ekki að fjölyrða meira um frv.; en vona að hv. deild samþykki það, svo það verði að lögum. Jeg verð reyndar að taka undir með hv. þm. Strand. (M. P.) um það, að jeg er ekki alls kostar ánægður með frv. — það er víst enginn hjer í deildinni, — en jeg tel þó víst, að frv. sje þó til talsverðra bóta, frá sjónarmiði Templara og bannvina.