28.07.1915
Efri deild: 17. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

46. mál, sveitarstjórnarlög

Flutningsmaður (Guðmundur Ólafsson :

Jeg býst ekki við að þurfa að fara mörgum orðum um þetta frv. Eins og hv. deild mun kunnugt, er svo fyrir mælt í lögum, að kosningar til Alþingis, bæjarstjórna og prests, skuli vera leynilegar. Býst jeg við að sama mætti gilda um kosningar til sýslunefnda og hreppsnefnda. Mjer þykir það einkennilegt að Alþingi, sem ákvað það 1903, að kosningar til bæjarstjórna skyldu fara leynilega fram, skyldi árið 1905 ákveða, að kosningar til sýslunefnda og hreppsnefnda skyldu ekki vera leynilegar, þar sem þessar nefndir hafa sama starfa fyrir sýslur og hreppa sem bæjarstjórnir fyrir kaupstaði.

Það er skoðun mín, og jeg býst ekki við að því verði mótmælt, að vilji kjósenda kemur betur fram við leynilegar kosningar og að síður er hætta á, að þeir verði fyrir áhrifum frá öðrum; hlýtur það að vera heppilegra, að allar kosningar, sem nokkru varða, fari fram á þenna hátt. Sú kosningaraðferð, sem gjört er ráð fyrir í þessu frumvarpi, er mjög óbrotin. Jeg efast ekki um, að deildin muni taka frv. með velvild. En þótt það sje stutt og óbrotið, hygg jeg að rjettara sje; að skipuð sje í það þriggja manna nefnd, og vil jeg gjöra það að tillögu minni, að það verði gjört að lokinni þessari umræðu. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið að svo stöddu.