10.08.1915
Efri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

46. mál, sveitarstjórnarlög

Kristinn Daníelsson:

Eins og háttv. framsm. tók fram, gátum við meðnefndarmenu hans ekki verið honum sammála um, að svo mikið lægi á þessu máli, eins og honum virðist. Það er síður en svo, að mjer sje að nokkru leyti í nöp við hugmyndina, og mundi vissulega styðja hana, ef jeg áliti að nokkur rjettaraukning væri fólgin í þessu, en það sje jeg ekki, og held því, að ekki sje rjett að rasa að þessu, áður en neinar óskir koma fram um það frá landsmönnum. Hv. framsm. vill koma á samræmi við aðrar leynilegar kosningar, en við þær kosningar er kosið um nöfn frambjóðenda eða umsækjenda, en þetta er einföld kosning, þar sem kosið er af handa hófi; hjer getur því ekkert samræmi náðst.

Kostnaðurinn veg okkur nú ekki í augum; hann er ekki meiri en svo, að ekki væri í hann horfandi, ef um framför væri að ræða; en fyrirhöfnin álítum við aftur að verði meiri heldur en svarar þeim bótum, sem á verða. Algengast er, að fremur lítill áhugi fylgi þessum kosningum og að hreppsnefndarmenn eru oft kosnir af sárfáum mönnum, svo að naumast tæki því, að hafa svo mikinn fyrirbúnað, sem leynilegri kosning fylgir. Kæmu fram óskir frá þjóðinni í þá átt, að innleiða þessar kosningar til hreppsnefnda, þá skyldi jeg fúslega breyta til, en þá teldi jeg rjettast að taka upp listakosningar. Með því móti yrði áhuginn ef til vill meiri, er menn yrðu knúðir til að hugsa sig um fyrir fram, hverja kjósa ætti, enda mun það vera það venjulega, að þar sem leynilegar kosningar eru, þá eru það listakosningar. Hvað viðvíkur 2. brtt. vil jeg taka það fram, að jeg er henni ekki samþykkur, að framan við nöfn þeirra að eins, sem kjörgengir eru, standi tölur 1, 2, 3 o. s. frv., en ekki við nöfn þeirra kjósenda, sem ekki hafa kjörgengi; það mundi vald ruglingi, og yrði því nauðsynlegt að hafa bæði kjörgengis- og kjósendaskrá. Held jeg að best væri, að alt þetta bíði eftir því, hver vilji landsmanna er í þessu efni, og leita því álits þeirra áður en lengra er gengið í málinu. Vil jeg því stinga upp á, að deildin afgreiði málið með rökstuddri dagskrá, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Með því, að deildin álítur að rjettara sje að bera mál þetta undir sveitarstjórnir, áður en því er ráðið til lykta, tekur hún fyrir næsta mál á dagskrá.