10.08.1915
Efri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

46. mál, sveitarstjórnarlög

Framsm. (Guðmundur Ólafsson) :

Það er ekki mikið, sem jeg þarf að svara. Fyrsta ástæðan var sú, að málinu lægi ekkert á. Því geta þeir einir haldið fram, sem álíta, að hjer sje um enga rjettarbót að ræða, og gjöri því ekkert til, þó frv. gangi ekki fram. Líka var hneykslast á því, að jeg sagði að hjer væri verið að koma á samræmi við aðrar kosningar. Jeg fæ ekki betur sjeð en að það sje rjett, og að kosningar með þessu móti verði mun tryggari. Einnig var minst á það, að fyrirhöfn og kostnaðarauki væri meiri en svo, að svaraði kostnaði. Jeg fæ ekki heldur sjeð, að það sje rjett; fyrirhöfnin er lítil, og kostnaðarauki ekki annar en að hafa ofurlítinn og ódýran atkvæðakassa og kjörmiða.

Talað hefir líka verið um það, að engar óskir hafi komið frá þjóðinni í þessa átt. Það er vitanlega hægt að slá sjer upp á slíku. En hvað segir þá hv. þm. G:-K. um önnur mál? Hvernig var það með fátækratíundirnar í fyrra? Þá gjörði þessi háttv. þingmaður lítið úr fyrirhöfninni við tíundarreikningana; en þótt hún væri ekki mikil, var hún samt meiri en að búa til kjörseðlana eftir þessu frumvarpi. Hafa ekki verið fleiri lög, sem þingið hefir samþykt án beinna óska þjóðarinnar? Enda býst jeg við, að fá lög yrðu afgreidd frá þinginu, ef alt af væri beðið eftir þeim.

Þá talaði þm. um, að þetta ættu að vera listakosningar, til þess að kjósendurnir lærðu að hugsa. Ekki býst jeg við, að þeir hugsi meira um kosningarnar, þó listakosning sje; eru flestir svo minnisgóðir, að þeir muna eftir á kjördeginum, hverja þeir vilja kjósa, jafnt hvort listakosning er höfð eða ekki. Þá talaði þm. um, að skrárnar þyrftu að vera. Ekki get jeg sjeð að þess þurfi, þegar tölustafirnir eru settir framan við nöfn þeirra, sem kjörgengir eru; álít jeg það full greinilegt.

Frá mínu sjónarmiði er því ekkert á móti frv. Engin sveitarstjórn telur eftir sjer fyrirhöfnina, og kostnaðurinn er ekki annar en skrálæstur atkvæðakassi. Vona jeg að hv. deild taki meira til greina rjettarbótina, sem frumvarpi þessu fylgir, heldur en ofurlítið aukna fyrirhöfn.