10.08.1915
Efri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

46. mál, sveitarstjórnarlög

Kristinn Daníelsson:

Aðeins örstutt athugasemd.

Það var ekki rjett hjá háttv. framsögumanni, þótt jeg teldi við eiga, að bera þetta mál undir sveitarstjórnir, að draga það út úr orðum mínum; að ekki mætti ráða neinu máli til lykta; án þess að bera það undir kjósendur. T. d. var alt öðru máli að gegna um tíundina, sem hv. framsm. vitnaði til, að jeg hefði verið með að nema úr lögum, án þess að leitað væri álits þjóðarinnar. Það var orðið viðurkent, að nú orðið munaði sveitarsjóðina ekkert um tíundina. Úr fyrirhöfninni að reikna hana, gjörði jeg lítið, svo það var engin ástæða fyrir mig hvorki til nje frá, og hygg jeg það sje ekki í neinu ósamræmi við það, þótt nú þyki mjer fyrirhöfnin vera ein af ástæðunum til að vera móti þessari breytingu.

Um listakosningarnar er það að segja, að menn geta að vísu hugsað um kosningarnar án lista, en því verður ekki neitað, að undirbúningur undir þær kosningar hlýtur að vera meiri og nákvæmari.