10.08.1915
Efri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

46. mál, sveitarstjórnarlög

Magnús Pjetursson:

Jeg ætla ekki að halda langa ræðu í þessu máli. Jeg vildi einungis taka það fram, að jeg fæ ekki betur sjeð en allir sjeu hjer á sama máli, og virðist því lítil þörf fyrir alt þetta tal. Allir álíta frumvarpið þarft og enginn finnur neitt verulegt í því, sem ekki megi ná fram að ganga. Jeg fyrir mitt leyti álit frumvarpið vera til talsverðra bóta, frá því sem nú er. Jeg hefi orðið var við það, að þessar kosningar fara víða mjög illa úr hendi, og brýn þörf er á, að kippa því í lag. Sjálfsagt er því að hafa leynilegar kosningar. Stefnan hefir verið sú hjá löggjafarvaldinu, að nota sem mest leynilegar kosningar, og er þá sjálfsagt, að nota þær einnig við þessar.