10.08.1915
Efri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

46. mál, sveitarstjórnarlög

Steingrímur Jónsson :

Það hefir nú verið talsvert rætt um þetta frumvarp og lýst kostum og löstum þess. Og ekki verður því neitað, að talsverðir gallar sjeu á því, t. d. leynileg kosning, sem þó er ekki listakosning. Annars veit jeg ekki til, að menn hafi verið neitt óánægðir með það fyrirkomulag sem nú er, og miklu minna hefir borið á þessum óviðfeldnu agitationum, en við kosningar til Alþingis, eða jafnvel við kosningar presta. Jeg hefi t, d. oft verið við hreppsnefndakosningar í minni sveit, og hefi jeg aldrei orðið var við annað eins kapp og agitationir, eins og við kosningar til þings og við prestskosningar. Jeg get ekki að því gjört, að mjer er hálfilla við, að hafa kosningarnar leynilegar. Jeg hygg, að afleiðingin af því verði sú sama; sem orðið hefir erlendis og í kaupstöðunum hjer, að kosningarnar verði algjörlega pólitískar. Og færi svo, þá væri það vissulega ekki til neins góðs, og væri verr farið en heima setið. Annars er jeg svo gamaldags, að mjer þykir dálítið leitt, ef nú eru teknar í burt síðustu kosningarnar í landinu, sem eru eftir gamla fyrirkomulaginu. Þetta frelsi manna, til að dylja sitt eigið atkvæði, er sannarlega ekki mikils virði, og tel jeg því leitt ef nú verða teknar í burtu þessar síðustu kosningar, þar sem menn svo að segja, fá að standa við atkvæði sitt við kjörborðið. Kjósandinn segir þar hreinlega, hvern hann kýs, og fer ekkert leynt með.

Þeim bar á milli, háttv. 4. kgk. þm. (B. Þ.) og háttv. framsm. (G. Ó.) um kosningarnar til sýslunefndar samkvæmt frumvarpinu.

Manntalsþingin eru oftast fyrir 2 eða jafnvel 3 hreppa, og geta kosningarnar því orðið talsvert mikil bákn og erfiðar.

Annars hefir verið lítil lesing í öllum þeim sýslunefndarkosningum, þar sem jeg hefi verið viðstaddur, og þar sem kapp hefir verið, þá hefir það verið miklu fallegra og göfugra en við þessar leynilegu kosningar. Alt var þar miklu hreinlegra og augljósara og engar bollaleggingar eftir á, hverjum þessi og þessi hafi greitt atkvæði, og hvort þessi muni hafa svikið, o. s. frv. Jeg fæ því ekki sjeð, að neitt sje unnið við þetta; frumvarpið er hálf- gjörður gallagripur og væri rjettast, að slá öllum breytingum í þessu efni á frest.