17.08.1915
Efri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

46. mál, sveitarstjórnarlög

Kristinn Daníelsson:

Eins og háttv. deild mun í minni, vorum við, sem höfum borið fram brtt. eina á þgskj. 370, á móti því, að þetta frv. verði að lögum. Ekki af því, að við viljum svifta landsmenn neinni rjettarbót, sem kynni að felast í frv. En við bjuggumst við því, að mörgum mundi þykja hjer vera um litla rjettarbót að ræða, og mundum því kjósa, að það væri borið undir landsmenn, áður en það yrði að lögum, svo að sæist hversu margir óska eftir þessari breytingu, og hversu margir kynnu að verða henni mótfallnir. En deildin vildi ekki skjóta þessu máli á frest, til þess að leitað yrði álits landsmanna, og því hefir okkur dottið í hug þessi breyting sem millivegur, að á hverjum stað geti það verið sjálfrátt, að hafa kosningu leynilega eða ekki. Við mintumst á þetta atriði við flutum. frv., og kvaðst hann ekki hafa neitt á móti því, að þetta yrði samþ., sem við höfum farið fram á. Þegar um þessar kosningar er að ræða, getur staðið mismunandi á; stundum er um reglulegar kosningar að ræða, stundum aukakosningar. Það þyrfti því mismunandi ákvæði, eftir því, hvernig á stendur, og vona jeg, að okkur hafi tekist að ganga frá því. Þá er varatill. um að að eins þurfi 1/10 hluti kjósenda að óska þess, að kosning fari leynilega fram. Við ætluðumst fyrst til, að það þyrfti ¼, en það þykir, ef til vill, of mikið heimtað, og mætti því 1/10 nægja, t. d. ef kjósendur eru 200 talsins, þá þyrftu 20 að óska leynilegrar atkvgr:, til þess að því fengist framgengt. Samkvæmt þessu leggjum vjer til, að breytt verði fyrirsögn frv., og enn fremur leiðir það af brtill. okkar, að 8. gr. frv. fellur burtu.