17.08.1915
Efri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

46. mál, sveitarstjórnarlög

Kristinn Daníelsson:

Jeg skil ekki, að hv. þm. Vestm., skuli vaxa í augum, að hreppsnefndum sje fengið vald til að ákveða, að þessar kosningar skuli fara leynilega fram, þar sem hann vill gjöra það að skyldu, að þær skuli vera leynilegar, hvort sem hreppsnefndir vilja eða ekki. Jeg skil ekki það samræmi, að hreppsnefndir skuli ekki mega ákveða þetta, en að Alþingi skuli mega gjöra það með lögum. Það má deila, um það, hversu mikils hluta kjósenda skuli krefjast, til þess að þeir geti ákveðið, að kosning skuli fara leynilega fram, og er ekki mikils krafist, þegar ekki þarf nema 1/10 hluta. Háttv. þm. Vestm. segist ekki skilja, hversvegna við höfum komið fram með þessa till., en jeg held, að jeg hafi þegar skýrt, af hvaða ástæðum við höfum gjört það. Það er vegna þess, að vafi leikur á, hvort landsmenn óska þessa, og er þá ekki hægt að hugsa sjer frjálslegra fyrirkomulag, en að hver hreppur skuli ráða því sjálfur, hvort hann kýs leynilega eða ekki, þannig, að hver hreppsnefnd geti tekið það upp, ef henni sýnist.