13.09.1915
Efri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

120. mál, þingsköp Alþingis

Framsm. (Guðmundur Björnson) :

Að eins örfá orð. Brtt. þessi kom nokkuð á óvænt, en jeg skal vera stuttorður um hana. Hv. þm. Vestm. (K. E.), hjelt að hjer væri að ræða um brot á stjórnarskránni, en það atriði höfðum við þegar íhugað, og borið það undir ýmsa af bestu lagamönnum borgarinnar, og þeir hafa eindregið lýst yfir, að svo væri ekki. Annað er það, sem, ef til vill, gæti komið til mála að óttast að væri brot á stjórnarskránni, sem sje það, að þingsköp vor svifta forseta atkv. sínu, en það álíta menn einnig að sje fyllilega heimilt.

Jeg get bent hv. þm. á það, sökum ótta hans við að teknar verði ýmsar mismunandi ákvarðanir um lagafrv., að það er mjög tíðkanlegt, að hafa strangari fyrmæli um fjárveitingar, heldur en um samþyktir annara tillagna.

Flm. brtt. talaði um, að meiri hluti ætti að ráða, en um tvenns konar meiri hluta getur verið að ræða, sem sje einfaldan og aukinn, og jafnvel getur verið krafist, að samþ. sje í einu hljóði. Hjer er því að eins verið að koma í veg fyrir, að meiri hlutinn sje of lítill. Jeg álít því, að hjer sje að ræða um eitt það besta í þingsköpum okkar, meiri forsjálni, en engin ástæða til að óttast, að það sje brot á stjórnarskránni.