13.09.1915
Efri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Steingrímur Jónsson :

Jeg á hjer tvær brtt., sem eiga saman. Önnur þeirra er á þgskj. 939, en hin á þgskj. 944. Þessar breytingartillögur snerta báðar brimbrjótinn í Bolungarvík. Fyrri tillagan fer fram á að setja inn þá athugasemd, að annarsstaðar frá skuli koma að minsta kosti 1/8 kostnaðar. Það er með öðrum orðum tekið upp sama skilyrðið, sem hv. fjárlaganefnd áður hafði við þessa fjárveitingu. Þessi orð hafa verið feld niður í háttv. Nd., og veit jeg ekki ástæðurnar til þess. Jeg hygg þó að aðalástæðan hafi verið sú, að það hafi verið talið of erfitt fyrir Bolvíkinga að leggja fram þessar 10,000 kr., en þó rjettlátt að þeir gerðu það. Jeg hefi því leyft mjer að koma fram með aðra breytingartillögu, sem snertir sama mál. Hún er þess efnis, að landsstjórninni veitist heimild til að veita Hólshreppi 10,000 kr. lán gegn ábyrgð sýslusjóðs, svo framkvæmdir málsins þurfi ekki að stansa vegna fjárskorts; því að ef hreppsnefnd og sýslunefnd vilja fá lán, þá geta þær það. Jeg vona að þessum brtt. verði vel tekið, og að jeg þurfi ekki að ræða þetta frekar. Orð háttv. fjárlaganefndar eru að eins tekin upp og sveitinni sýnd meiri linkind en áður.

Það urðu talsverðar umræður um þetta mál á þingi 1913, og var deilt um það, af okkur hv. þm. Ísaf. (S. St.) annars vegar um það, hve hátt landssjóðstillagið ætti að að vera, og hins vegar, hve mikinn hluta hjeraðsbúar sjálfir ættu að leggja fram. Það varð ofan á, sem háttv. þm. Ísaf. (S. St.) vildi, nefnilega, að upphæðin yrði hærri, og eins að sá hluti, sem Hólshreppur legði fram, yrði lægri en jeg vildi. Þá datt engum í hug, að landssjóður ætti að borga meira en helming. Svo kom á þessu þingi tillaga um að strika út þetta skilyrði; það áleit nefndin rangt og breytti því aftur. Jeg skil ekki hvernig þetta getur kallast forsvaranleg fjárhagspólitík, að taka þetta eina fyrirtæki, sem sjávarútveg snertir, út úr öllum öðrum sams konar fyrirtækjum á kostnað þeirra. Sá er munurinn á Húnvetningum og Bolvíkingum, að Húnvetningar verða að borga 2/3 bryggjukostnaðar á Blönduósi, en Bolvíkingar ekki nema 1/3 kostnaðar hjá sjer, og er þó lífsnauðsyn fyrir Blönduósinga að fá þessa bryggju. Og hvers vegna er gjörður þessi mikli munur á Bolungarvík og Sauðárkróki, sem ekki fær nema 1/3 kostnaðar, eða Eyjafirði, sem ekki fær nema 1/7 eða 1/8. Sama er líka að segja um Húsavík. Þá vík jeg að höfuðstaðnum ; það er álitið að hann eigi að fá í mesta lagi ¼ kostnaðar. En hvað Vestmannaeyinga snertir, þá er með lögum ákveðið, að þeir skuli ekki fá meira en ¼, og vita þó allir, að sú höfn er fyrst og fremst fiskveiðahöfn og þar að auki er landið alt, sem að henni liggur, eign landssjóðs. Eða fær Bolungarvík þenna háa styrk, af því að landið þar er ekki landssjóðseign, af því að eigandi landsins er verzlun ein þar á staðnum. Það hefði verið sanngjarnt að heimta, að landeigandi legði fram það, sem á vantaði. Ef þetta verður samþykt, þá fara að tíðkast þau hin breiðu spjótin, það, að heimta með frekju háar upphæðir, án þess að vissa sje fyrir að það borgi sig. Afleiðingin er sú, að aðrir staðir á landinu fá ekkert. Ef 300,000 kr. eru veittar Bolungarvík, verða aðrir staðir á landinu að bíða, meðan landssjóður er að vinna sjer inn fje. Jeg vil láta Bolungarvík fá brimbrjót, en. jeg vil ekki láta ausa svona miklu fje úr landssjóði til þess. Til samkomulags vil jeg láta þá borga 1/3 kostnaðar, en lengra get jeg ekki gengið og vona að deildin samþykki breytingartillögur mínar.

Jeg skal ekki fjölyrða meira um þetta mál; jeg vil ekki lengja umræður um þetta mál, með því að fara út í einstakar brtt. Það er búið að ræða þær flestar, og jeg hefi minst á þær áður, og mun með atkvæði mínu skýra hvernig jeg lít á þær.