08.09.1915
Efri deild: 55. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

52. mál, tún og matjurtagarðar

Framsm. (Sig. Stefánsson) :

Nefndin hefir komið fram með breytingartillögu við þetta frv. samkv. þeim athugasemdum, er fram komu hjer í deildinni við 2. umræðu málsins. Brtt. eru tvær og eru báðar ofur einfaldar og augljósar. Fyrri brtt. er um það, að sýslunefndin skuli hafa eftirlit með framkvæmd mælinganna í stað sýslumanna, sem mælt var fyrir í frv. Er það gjört til þess, að ákveðið sje, að sýslunefndirnar skuli bera þennan kostnað, sem reyndar verður aldrei mikill.

Síðari brtt. er fram komin samkvæmt tilmælum hv. þm. Vestm. (K.E.), sem upplýst hefir, að í Vestmannaeyjum hafi samskonar mælingar farið fram á kostnað umboðssjóðs, og verður stjórnarráðinu væntanlega sent eitt eintak af uppdrættinum, eins og mælt er fyrir í 2. gr. frv. Annars ætla jeg að taka það fram, að vitanlega á landssjóður ekki að borga fyrir það eintak. Liggur það í hlutarins eðli, þar sem landssjóður hefir áður borgað allan kostnað við þessar mælingar.