30.08.1915
Efri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

91. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Guðm. Björnson:

, Jeg hlýt að vekja athygli á því, hæstv. forseti, að þetta frumvarp fer í bága við hina nýju stjórnarskrá, ekki að efni til, heldur hvað titil þess snertir. Jeg býst við því, að háttv. neðri deild hafi eigi veitt þessu athygli, er hún afgreiddi málið.

Í annari grein hinnar nýju stjórnarskrár segir svo:

„Konungur vinnur eið að stjórnarskrá Íslands. Af eiðstaf konungs skal gjöra tvö samhljóða frumrit, og geymir Alþingi annað þeirra, en hitt skal geymt í Landsskjalasafninu.“

Hjer segir Landsskjalasafn, en ekki Þjóðskjalasafn, en frumvarpið fer fram á, að nafni Landsskjalasafnsins verði breytt í Þjóðskjalasafn.

Jeg vænti þess eigi, að hæstv. forseti vísi málinu frá af þessari ástæðu, en jeg vona að háttv. nefnd taki þessa athugasemd til greina, að öðrum kosti get jeg ekki greitt frumvarpinu atkvæði.