07.09.1915
Efri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

91. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Frsm. meiri hl. (Björn Þorláksson):

Meðferð þessa máls hjer í þinginu hefir verið dálítið einkennileg, og langar mig til þess, að fara nokkrum orðum um hana. Málið var tekið á dagskrá til 2. umr. fyrir nokkrum dögum, án þess að nál. væri fram komið, og er það mjög óvanalegt, og veit jeg ekki til, að það hafi enn borið við í þingsögunni fyrr en nú. Út af fyrirspurn frá mjer; svaraði hæstv. forseti á þá leið, utan fundar þó, að sá maður hjer í deildinni, sem þetta mál snerti mest, hv. 6. kgk. þingm. (J. Þ.), hefði krafist þess, að fá það á dagskrá. Það getur vel verið, að hæstv. forseti geti tekið sjer þetta vald, þó að jeg, sem þó er nokkuð kunnugur þingsköpunum, geti ekki sjeð það. (Forseti : Jeg hjelt að þessum umræðum væri lokið). Jeg sje ekki ástæðu til að þeim sje lokið, því alt við kemur þetta málinu. Í 17. gr. þingskapanna stendur svo: „Eigi má taka málið að nýju til umræðu fyrr en að minsta kosti 2 nóttum síðar en nefndarálitinu var útbýtt“. Jeg hefi haft það starf á hendi á þessu þingi og þeim síðustu, að útbúa dagskrá í samráði við hæstv. forseta hjer í deildinni, en í þetta sinn var jeg ekkert til kvaddur, heldur setti hæstv. forseti sjálfur þetta mál inn á dagskrána, og veit jeg ekki hvað til hefir komið. Enda hefi jeg ekki orðið þess var, að hv. deild hafi lýst neinni óánægju yfir, hvernig það starf mitt var af hendi leyst. Þegar á fund kom, lýsti hæstv. forseti yfir, að nál. væri komið í málinu. Þetta er aftur eins dæmi í þingsögu vorri. Einn maður á nefnd tekur sig til, áður en nefndin hefir klofnað, og skrifar álit sitt. Þetta kallar forseti nefndarálit. Bersýnilegt er af þessu, að mikils hefir þótt við þurfa, þar sem svona óvanaleg aðferð var notuð. Málið gat þó ekki komið til umr., nema með afbrigðum fá þingsköpum, en þegar leitað var vilja deildarinnar, þá neitaði meiri hl. hv. deildarmanna að gefa leyfið. Jeg vil því, sem formaður nefndarinnar, þakka hv. deildarmönnum fyrir mína hönd og meðnefndarmanns míns, hv. 5. kgk. þm. (G. B.), fyrir þá kurteisi, að þeir vildu ekki taka með valdi málið úr höndum okkar, eins og hæstv. forseti vildi gjöra, enda er slík ofbeldistilraun algjörlega á móti öllum þingreglum og þingsköpum.

Þetta mál var sett í nefnd 28. f. m.; en 7. sept. er gjörð tilraun til þess að taka málið inn í deildina á móti okkar vilja, og því kent um, að málið dragist of lengi í okkar höndum. En það einkennilega við þetta er það, að allmörg mát voru sett í nefnd um líkt leyti eða talsvert fyrr, og nál. í sumum þeirra eru ekki enn fram komin og í sumum komu þau í gær og eru að koma. Og til þess að sýna, að jeg fer hjer með rjett mál, skal jeg benda á nokkur mál, sem svo er farið.

Sóknargjaldamál hv. þm. Barð. (H. K.) var sett í nefnd 24. júlí; tollhækkunarfrv. hv. þm. Strand. (M. P.) 5. ágúst; tvö tollækkunarfrv. hv. 5. kgk. (G. B.) 31. ágúst, og er nál, ekki fram komið í neinu þessara máta. Till. til þingsál. um lífsábyrgðarfjelög var sett í nefnd 28. ágúst og nál. ókomið; brunabótatrygging 30. ágúst, og nál. kom í dag; frv. til laga um fræðslu barna sett í nefnd 28. júlí var til 2. umr. í dag; nál, kom 7. þ. m.

Ekkert þessara mála hefir hv. forseti reynt að þvinga fram, eða taka úr höndum nefndanna. (Forseti : Þetta tal er tilgangslaust, því jeg svara því alls ekki). Jeg bjóst ekki við því. (Forseti: Hver á þá að svara því?) Menn geta svarað því í hjörtum sínum.

Sumir munu, ef til vill, benda á, að einn þm. hjer í deildinni hafi óskað þess, að málið væri tekið fyrir. Og er það að vísu rjett, að hjer hefir sá maður gjört það, sem málið skifti miklu og hefði átt að láta þetta alveg afskiftalaust, ef hann hefði haft nægilega tilfinningu fyrir sóma sínum. En það er ekki svo að skilja, að fleiri hafi ekki látið sjer ant um þetta mál en hv. 6. kgk. (J. Þ.). Jeg hygg, að ýmsum mönnum utan þingdeildarinnar og utan þingsins, hafi þótt miklu skifta að láta málið ganga sem fyrst fram. Fyrir þeim hefir það eflaust vakað, að þetta væri mikið nauðsynjamál, sem þörf væri á að knýja áfram. Þeim hefir virst, að hjer væri mikil þörf á að stofna enn eina hálaunaða sýslan, eina 3000 kr. sýslan, og að þetta þing mætti ekki svo hjá líða, að. ekki væri stofnað embætti, sem spyrða mætti saman við docentsembættið frá síðasta þingi; hvert þing yrði þó að hafa eitthvað sjer til ágætis í þessu efni.

En jeg ætla að víkja aftur að því, hversvegna svona mikið var rekið á eftir þessu máli. Hv. 6. kgk. þm. (J. Þ.) beiddist þess, að málið væri tekið fyrir, og kemur manni það ekkert ókunnuglega fyrir, því: sjálfsagt hefir hann lagt svona mikið kapp. á þetta, eingöngu af ósjerplægni og elsku til vinar síns, skjalavarðarins. Hv. 6. kgk. þm. (J. Þ.), kom enda oft og iðulega til mín, bæði áður en málið kom hingað í deildina og eftir að það kom hingað og búið var að setja það í nefnd og lagði að mjer að styðja málið og hjálpa sjer til að koma því fram. En jeg er nú með þeim ósköpum fæddur, að þegar reynt er að beita við mig aðferð, er mjer þykir kenna frekju eða ásælni, þá er jeg ófáanlegur til liðsinnis, eða til þess að ausa fje úr landssjóðnum. Í síðasta sinn, sem hv. 6. kgk. þm. (J. Þ.) reyndi til að fá mig til fylgis við elskulegan vin sinn, skjalavörðinn, þá bauð hann mjer regluleg hrossakaup, Og hann fór lævíslega að, því hann vissi hvar jeg mundi veikastur fyrir. (Forseti: Ef þingmaðurinn heldur þessu áfram, þá tek jeg orðið af honum, því þetta eru einungis persónulegar árásir). Jeg ætlaði að segja lítið eitt meira um þetta atriði, en skal nú fara fljótt yfir sögu, því jeg býst hins vegar við, að flestir þingdm. hafi reynt þetta sama af þessum hv. þm. Auðvitað getur hann borið á móti þessu og sagt þetta: alt ósannindi, og viðhaft í því sambandi eitthvað af þeim snotru og smekklegu orðatiltækjum, sem hann hefir svo mikið af í sínum orðabelg. En þá get jeg skotið. því undir dóm kunnugra manna, hvor muni vera áreiðanlegri í orðum sínum.

Jeg ætlaði einungis að bæta því við, að þessi hv. þm. fór erindisleysu til mín. Það var sama daginn og hann hjelt þessa makalausu ræðu við 2. umr. fjárlaganna og fór ýmsum ókvæðisorðum um Templara og bannvini, svo að hæstv. forseti varð að hringja hann þrisvar niður. Hv. 6. kgk. þm. (J. Þ.) varð sjer svo til minkunar í það sinn, að óvíst er, hvort ræðan kemur út í þingtíðindunum, því það er siður sumra manna, að strika þar út þau orð, er þeir hafa viðhaft, og er það skaði í þetta sinn, að almenningi skuli ekki gefast kostur á að sjá, hversu langt hann komst í snotru orðbragði. (Forseti : Ef þm. heldur þessu áfram, þá tek jeg orðið af honum). Mjer finst það hljóti að vera vera óhætt að tala á þessa leið, þar sem þessum hv. þm. hjelst það uppi, að ausa fúkyrðum yfir það fjelag, hjer á landi, sem mest og best hefir unnið af öllum fjelögum landsins. (Forseti: Hann var líka ámintur). Já, að vísu, en hringingar hrífa ekki á slíkan mann. Annars heyri jeg, að hv. þingdm. leiðist ekki eins mikið ræða mín og hæstv. forseta, og er það mein, að hæstv. forseti skuli amast við því, að jeg skemti mönnum dálítið nú. Jeg gjöri það ekki svo oft.

Jeg vík aftur að því, að hv. 6. kgk. (J. varð sjer til minkunar um daginn. Mjer þykir það leiðinlegt, og því leiðinlegra, sem svar mitt við hrossakaupaboði hans mun hafa gefið tilefni til ofsa og fúkyrða hans; og þetta er mjer því leiðara, sem hann er mjer persónulega kunnur að ýmsu góðu. En nú hefur hann með framkomu sinni á þessu þingi búið svo í garðinn fyrir sig og hæstv. ráðherra, að ef jeg hefði lifað það að vera í mótflokk stjórnarinnar, þá hefði jeg talið það nægilegan og fullnægjandi rökstuðning fyrir vantraustsyfirlýsingu til stjórnarinnar, að hún skuli hafa bent hans hátign konunginum á, að taka annan eins mann fyrir þingmann, eins og hv. 6. kgk. þm.

(J. Þ.), svo litla sæmd hefir þingið haft af honum hjer í sumar.

Þessi maður berst nú með oddi og egg fyrir því, að föst laun vinar 6. kgk. þm. (J. Þ.), landsskjalavarðarins, verði hækkuð úr 1800 krónum upp í 3000 krónur. Það er mergurinn málsins í frumvarpinu.

Í hv. Nd. var komist svo að orði, að þessi maður hefði gjört svo mikið gagn og int svo gott starf af hendi, að hann væri góðs maklegur, og hlýddi ekki annað en hækka laun hans; svo hann hefði ekki sveltilaun. Svo segist meiri hluta nefndarinnar þar frá. Það er rjett, að landsskjalavörðurinn hefir gjört gagn, og að hann er góðs maklegur. En það má launa honum með mörgu öðru en því, er frv. þetta gjörir ráð fyrir, og á ýmsan annan hátt en að láta það verða að lögum.

Jeg vil benda á nokkrar aðferðir.

Það er þá fyrst, að stjórnin gæti útvegað honum kross. (Hlátur um salinn). Það hefir margur verið krossaður. fyrir minna og lakara starf en það, sem hann hefir int af hendi, og jeg vona, að hæstv. ráðherra sje ekki neitt ófús til þess. (Hlátur. — Forseti hringir). Jeg segi þetta í fullri alvöru, og endurtek það, að jeg treysti stjórninni vel til þess, að gjöra. það, ef landsskjalavörðurinn vill þiggja krossinn. (Forseti hringir).

Önnur aðferð, er nota mætti, er að sæma hann einhverri heiðursgjöf, t. d. peningagjöf eins og stundum hefir verið gjört og fordæmi eru fyrir, en nú er dýrtíð og erfitt með fjárhag, og því vil jeg ekki leggja það til, en vil velja ódýrari aðferð, og það er þriðja aðferðin.

Það er gamall og góður siður, að gefa mönnum myndir. Jeg geng að því sem vísu, að hann hefði gaman af að eignast mynd eftir einhvern af þessum efnilegu listamönnum okkar, sem hv. þm. Dalam. (B. J.) hefir svo oft verið að tala um.

Eins og hann hefði t. d. ekki gaman af að eignast mynd af hv. 6. kgk. þm. (J. Þ.), (Forseti hringir) til þess að víst sje, að hin fagra ásjóna hans varðveitist fyrir eftirtímann.

Svo er enn ein aðferðin. Það vita allir, að landskjalaverðinum er mjög umhugað um alt það, sem er fornt og fágætt.

Í fyrra var hjer á Alþingi borið fram frumvarp til laga um refi. (Hlátur). Undir umræðum um málið upplýstist það, að þeir eru orðnir mjög sjaldgæfir hjer á landi. (Forseti: Jeg tek orðið af þingmanninum, ef hann heldur sjer ekki við efnið.) og tel jeg því, að það væri vel til fallið að gefa honum mynd af ref og hengja hana upp við hliðina á — — — (Forseti: Nú tek jeg orðið af þingmanninum, því jeg álit ósæmandi að hafa slík persónuleg ummæli og málinu alveg óviðkomandi um háttv. þingdeildarmenn). Þingdeildarmenn! Hvaða þingdeildarmenn?

Það er sýnilegt, að hæstv. forseti hefir ekki jafn mikla ánægju af þessu og þingdeildin, og mjer þykir leitt að mega ekki halda dæminu áfram, til þess að ljúka við myndina eða myndlýsinguna.

(Forseti: Orðið er tekið af þingmanninum).

Jeg skal þá snúa mjer að efninu og sýna fram á að landsskjalavörðurinn hefir engin sveltilaun — — — —

(Forseti hringdi stöðugt bjöllunui meðan síðasta setningin var töluð).