07.09.1915
Efri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

91. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Framsm. meiri hl. (Björn Þorláksson):

Út af ummælum hæstv. ráðherra um kostnað við útgáfu Alþingisbókanna og afritun fornskjala vil jeg að eins gjöra þá athugasemd, að jeg nefndi þetta fje á nafn, að eins til að sýna, hve mikið fje hinn núverandi landsskjalavörður hefir til umráða, enda mun enginn hafa skilið orð mín svo, að jeg teldi allt þetta fje renna í hans vasa. Með upptalningunni ætlaði jeg að sýna, við hvað mörgu maður þessi getur gefið sig, og nefndi jeg þó ekki allt. Jeg vona, að háttv. deild hafi tekið eftir því, að jeg nefndi tvær fjárupphæðir, fyrst allt hið opinbera fje, sem skjalavörðurinn hefir til meðferðar, og síðan hvað af því mundi beint renna til hans sjálfs, og taldist mjer svo til, að það mundi vera um 4000 kr. á ári, og við það fanst mjer hann geta unað í bráð.

Jeg held jeg megi fullyrða, að skjöl þau sem afrituð eru erlendis handa fornbrjefasafninu, sjeu aftur borguð úr annari átt.