13.09.1915
Efri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Steingrímur Jónsson :

Að eins örfá orð út af ræðu háttv. þm. Ísaf. (S. St.).

Jeg get ekki neitað því, að mjer fanst hann svara nokkuð út í hött, er hann var var að verja brimbrjótinn, og eins er hann sagði, að jeg hefði verið að bera hann saman við vegagjörðir, en það gjörði jeg alls ekki, enda þótt það mætti. Það liggur sem sje í augum uppi, að þetta fyrirtæki hlýtur að tefja fyrir vegagjörðum. En jeg tók aðrar umbætur til samanburðar, og þar á meðal höfnina í Vestmannaeyjum. Getur engum blandast hugum um, að þar er um engu þýðingarminni veiðistöð að ræða, nú sem stendur og allra síst í framtíðinni. Satt er það að Ísafjarðarsýsla hefir fengið lítið til vega, en hún hefir fengið ýmislegt annað, svo sem bættar samgöngur á sjó, fje veitt til bátaferða og millilandaferða og hefir að að því leyti alls ekki orðið út undan.

Þegar litið er á verk þetta, þá eru margir staðir, sem eiga eins mikla kröfu til þess eins og Bolungarvík, svo sem Keflavík vestra, Þorlákshöfn o. fl. Hjer er um principmál að ræða, sem alls ekki má ana hugsunarlaust út í.

Það gladdi mig að háttv. þm. Ísaf. (S. St.) sagði að áætlanin væri að eins lausleg ágiskun frá Krabbe, en í hitt eð fyrra var þetta talin áætlun.

Jeg held að tal háttv. þm. Ísaf. (S. St.) um gyllivonir, að því er lánsheimildina snertir, hafi verið ástæðulaust. — Við 2. umr. talaði jeg um að 100 þús. kr. innborguðust af viðlagasjóði, og sjálfsagt er að lána það fje aftur, og jeg hygg háttv. Þingmann vita að þau fyrirtæki, sem landssjóður styrkir, ganga þar fyrir.

Háttv. þm. Ísaf. (S. St.) talaði um, að þetta yrði í eina skiftið, sem Bolvíkingar sæktu um fje, án þess að leggja eitthvað af mörkum sjálfir, og vona jeg að þm. segi það satt; en jeg get ekki neitað því, að jeg er hræddur um að það rætist ekki. Og áreiðanlegt er það, að framkoma þessa máls í Nd. stingur mjög í stúf við það, sem gjörðist þar 1913.