26.07.1915
Efri deild: 16. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

3. mál, kosningar til Alþingis

Framsm. (Karl Finnbogason):

Nefndin hefir íhugað þetta atriði, og varð það ofan á hjá meiri hluta hennar, að heppilegast væri að ákvæðið stæði óbreytt. Meiri hlutinn leit svo á, að það gæti reynst meira en bagalegt, ef landið væri lengi þingmannalaust á þessum styrjaldartíma, því að nú geta á hverri stundu orðið þeir atburðir, að kalla verði saman þing. Annars er jeg fyllilega sammála hv. 2. kgk. þm. (Stgr. J.) um það, að það er mjög óheppilegt að halda landskosningarnar í marsmánuði. Bæirnir og kauptúnin munu ráða fullmiklu um þær kosningar, þótt kosningatíminn hjálpi þeim ekki líka. Jeg fyrir mitt leyti gæti því vel fallist á till. hv. 2. kgk. þm. (Stgr. J.), að fella ákvæðið burtu, því að jeg býst ekki við, að nein hætta mundi stafa af því, þótt landið væri þingmannalaust um nokkurn tíma. Og að minsta kosti gæti þá hættu að borið alveg eins fyrir 1.–10. júní 1916, eins og eftir þá daga.