13.09.1915
Efri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Karl Einarsson :

Jeg á breytingartillögu á þgskj. 958.

Árið 1911 voru veittar 5 þús. kr. til að rannsaka hafnarstæði í Vestmannaeyjum. Þá var meiningin að landssjóður greiddi allan kostnað við undirbúning hafnarinnar og sæi um að gjörðar yrðu áætlanir. Þá gat nefnilega farið svo að Vestmannaeyingar sæu sjer ekki fært að ráðast í hafnargerðina, en 1913 voru samþykt lög um þetta. Fyrir þinginu 1914 lá svo beiðni um að fá endurgreiðslu á því fje, sem til hafði verið kostað fram yfir það, sem veitt var, og var þar farið eftir reikningi hafnarsjóðs, og var kostnaður við rannsóknina kr. 7305,65; en eftir bendingu eins háttv. þingmanns kem jeg með brtt., þannig, að þar standi ekki á aurum, því óvenjulegt mun vera, að svo standi í fjárlögunum.

Vona jeg að háttv. deild samþ. brtt., þar eð háttv. framsögumaður fjárlaganefndar hefir ekki hreyft mótbárum, öðrum en þeim, að hún kæmi seint, en jeg sá ekkert athugavert við það, og mun upplýsa málið betur í sameinuðu þingi, ef þarf, og fær þá háttv. nefnd tækifæri til að gera álit sitt gildandi. Hins vegar játa jeg, að brtt. kemur seint, en beiðnin lá fyrir í fyrra, en þá voru fjáraukalögin feld, og varð eigi úr að endurtaka hana, og svo sást mjer yfir hana þar til nú.