11.09.1915
Efri deild: 58. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

3. mál, kosningar til Alþingis

Framsm. (Karl Finnbogason) :

Hv. 5. kgk. þm. (G. B.) vill stuðla að því, að landið verði sem skemstan tíma þingmannslaust, eða, eins og hann skýrir það, vinna á móti því, að núverandi þm. lengi umboð sitt.

Ástæður hans eru þær, að allar líkur sjeu til, að þörf verði á aukaþingi að sumri, og á því aukaþingi eigi að vera nýkosnir menn.

Jeg veit enga von þess, að aukaþing þurfi að heyja að sumri, nema eitthvað alveg sjerstakt og ófyrirsjáanlegt komi fyrir. Og þær orsakir, sem heimtuðu aukaþing, eftir að 10 vikur eru af sumri, gætu alveg eins orðið fyrir hendi áður en 10 vikur eru af sumri. Brtt. hv. þm. ráða því ekki bót á því, sem þeim er ætlað. Það er óhjákvæmilegt, að eitthvert bil verði á milli þess, að stjórnarskráin öðlist gildi og kosningar fari fram. Og jeg sje ekki, að það skifti neinu verulegu, hvort það bil verður mánuðinum lengra eða styttra.

Þá lagði hv. formaður kosningalaganefndarinnar (E. B.) áherslu á það, að ágústdagar væru dýrmætari en septemberdagar. Þetta er mjög vafasamt og alveg komið undir tíðarfari. En jeg hygg, að jafnaðarlega sjeu umræddir septemberdagar enn þá dýrmætari en fyrstu dagarnir af ágúst. Síðari hluta ágústmánaðar eru oft og einatt óþurkar. Þá safnast fyrir hey, sem ekki hirðist fyrr en í september. Og hver þurkdagur á þeim tíma, eftir langvinna óþurka, getur orðið og er oft margfalt dýrmætari bændum en nokkur annar dagur ársins. Oft gæti slíkur dagur orðið 9. september. Aðalatriðið er þó það, sem jeg hefi áður tekið fram, að þótt ágúst og septemberdagarnir sjeu lagðir að jöfnu, þá er meiri skaði að septemberdögunum, vegna þess, að þá eiga margfalt fleiri að fara frá verki til kosninga.

— (Guðmundur Björnson: Eru færri kjósendur í ágúst?), Já, víst eru þeir færri, sem kosningarrjett hafa til landskjörs en kjördæmakjörs. Og það ætti hv. 5. kgk. þm. (G. B.) að vera fullkunnugt.