11.09.1915
Efri deild: 58. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

3. mál, kosningar til Alþingis

Framsm. (Karl Finnbogason) :

Eins og framhaldsnefndarálitið getur um, hefir hv. Nd. hvergi breytt frv. þessu frá því, sem það var, þegar það fór hjeðan úr deild, nema ákvæðunum um stundarsakir.

Í stað þess, að þessi hv. deild ætlaðist til, að landskjörið færi fram í síðara hluta marsmánaðar og kjördæmakjörið 1.–10. júní 1916, hefir hv. Nd. ákveðið í frv., að landskjörið fari fram 1. júlí, en kjördæmakjörið 9. september 1916. Meiri hluti nefndarinnar gat ekki fallist á, að þetta væri heppilegur tími, og hefir því komið með brtt. á þgskj. 899 um, að kosning landskjörinna þm. skuli fara fram 5. ágúst, en kjördæmakjörinna fyrsta vetrardag. Aðalástæðan fyrir brtt. er sú, að meiri hlutanum þótti eigi gjörlegt að kosningartíma væri þannig hagað, að fyrir gæti komið, að báðar kosningarnar lentu á heyskapartímann; því að þegar vel árar, eru dæmi til, að sláttur sje byrjaður 1. júlí, og undantekningarlaust heldur sláttur áfram fram yfir 9. sept. Eins og hv. Nd. gekk frá frv., gæti það því komið fyrir, að sveitamenn yrðu að tefja sig frá slætti til að sækja báðar kosningarnar, og sjá allir, að það er ærið bagalegt fyrir þá. Til að koma í veg fyrir þetta, þá leggur nefndin til, að kosningatímanum sje þannig breytt frá því, sem nú er í frv., . að önnur kosningin að minsta kosti lendi ekki á slætti, og þá er sjálfsagt, að það kjörið, sem flestir eiga að taka þátt í, lendi á sem minstum annatíma. Til landkjörsins koma helst húsráðendur og þeir eldri menn aðrir, sem ráða sjer sjálfir. En til kjördæmakjörsins eiga miklu fleiri erindi, og einmitt margir þeir, sem ekki ráða sjer sjálfir, og fá því miklu síður að fara heiman, ef annir eru miklar kjördaginn.

En þó jeg mæli nú með brtt. meiri hl. nefndarinnar, þá hefi jeg ekki skift um þá skoðun, að langheppilegast hefði verið að haga kosningum að tillögu okkar hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.), sem við fluttum hjer í deildinni við 3. umr. málsins. Eina leiðin til að fá menn alment til að nota rjett sinn við landkjörið, er að hafa það samtímis kjördæmakjörinu. En fyrst það getur ómögulega náð samþykki þingsins, eins og sýnt er nú, fyrst meiri hlutinn metur það meira, að fáeinir landsmenn geti boðið sig fram til beggja kosninga en að fjöldi kjósenda geti notað rjett sinn, þá virðist mjer litlu skifta, þótt landskjörið fari fram á annatíma, því víða mun það ekki verða sótt af kappi, hvort sem er. Hitt er með öllu óhæfilegt, að láta kjördæmakjörið fara fram um sláttinn að þarflausu.