07.08.1915
Efri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

92. mál, fasteignamat

Flutnm. (Jón Þorkelsson):

Svo sem öllum má kunnugt vera, er jarðamat það, sem nú er í lögum, orðið svo gamalt, að ekki er við hlítandi. Jarðabókin er nú fimtug, en matið sjálft er þó talsvert eldra, eða 66 vetra gamalt. Á þessum tíma hafa vitanlega orðið fádæma breytingar á verðmæti fasteigna, og er matið því orðið mjög úrelt og marklítið í flestum greinum. Milliþinganefndin, sem skipuð var hjer á árunum, til þess að athuga skattamálin, kom fram með frv. um jarðamat. Gjörði hún það í þeirri veru, að hækka ábúðarskattinn og afla landssjóði þann veg fjár. Vera má, að sumir hafi sett fyrir sig þessa hækkun ábúðarskattsins, en slíkt er smásmuglegt, og má ekki til greina koma. Aðrir kunna að hafa óttast kostnaðinn við framkvæmd nýs jarðamats, en óþarft virðist það, því að kostnaður sá mundi að líkindum ekki fara fram úr 20 þús. kr. og kæmi sjálfsagt inn þegar á næstu misserum fyrir eðlilega hækkun á ábúðarskattinum. 1913 lagði stjórnin þetta frumv. nefndarinnar fyrir Alþingi, en það var felt í Nd. umræðulítið, og varð það verk óvinsælt og alstaðar illa rómað af góðum mönnum og vitrum, að farga svo dýru máli af dutlungum einum.

Jeg hefi vikið orðum að því, hve gagnsamt nýtt jarðamat væri fyrir landssjóð, en hins er þó ekki síður getandi, að það mundi efla lánstraust alls landslýðsins, og annað það, sem til bóta má horfa. Mjer hefir verið sagt af fróðum mönnum og margvísum, að húseignirnar í landinu sjeu metnar 8 milj. kr. verðhærri en jarðeignirnar. Fyrr má nú vera samt en að landið sjálft sje svo miklu verðminna en húsakofarnir, sem á því standa, fúnir og fallsælir.

Um frumv. sjálft ætla jeg ekki að fara fleiri orðum um sinn. Því hefir verið breytt nokkuð frá því, sem það var 1913, en þó kunna enn þá að vera nokkrar á því misfellurnar, og vil jeg því leggja til, að skipuð verði þriggja manna nefnd, til þess að vinna á því bætur. Vona jeg nú, að málinu farnist vel á þessu þingi, og menn kunni þar um þess til að gæta, er til þjóðþrifa má horfa, því það er stórnauðsynlegt og mikilsvert fyrir land og lýð, alinn og óborinn.