20.08.1915
Efri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

92. mál, fasteignamat

Framsm. (Eiríkur Briem):

Svo sem hv. deild er kunnugt af nefndarálitinu, tók nefndin fyrst til íhugunar, hvort ástæða væri til að sinna frv., og komst hún að þeirri niðurstöðu, að rjett væri að leggja það til, að frumv. yrði samþykt. Það er vitanlegt, að upphaflega fóru menn að hugsa um nýtt jarðamat í sambandi við skattamál landsins. Þannig stóð tillaga skattamálanefndarinnar um nýtt jarðamat í sambandi við fasteignaskatt þann, sem nefndin stakk upp á, að lagður yrði á. Mönnum hefir ekki dulist, að jarðamat það, sem nú gildir, er orðið úrelt og ófullkomið. Á þeim 60–70 árum, sem liðin eru frá því matið fór fram, hafa gjörst meiri breytingar hjer á landi, heldur en frá landnámstíð til þess tíma. Enda var svo, að víða þótti gamla matið rjett og sanngjarnt fram yfir miðja 19. öld, nema þar sem æðarvarp var, eða annar plógur, sem hleypt hafði upp mati jarðanna. Þó gæti verið skoðunarmál, hvort vjer ættum að ráðast í að gjöra nýtt jarðamat nú þegar, ef ekki kæmi annað til greina en skattamálin, og getur þó raunar bráðlega rekið að því, að nýr fasteignaskattur verði lagður á, en þá hljóta allir. að sjá, hve mikilsvert það er, að matið hafi farið fram áður. Ef skatturinn væri lagður á áður en nýtt mat færi fram, mundi enginn geta haft hugmynd um, hvað miklu hann mundi nema, en það er þó mjög mikilsvert. En þó að alls ekki sje litið á skattamálin, þá er þó áríðandi að fá nýtt jarðamat af mörgum öðrum ástæðum. Það mundi t. d. veita oss margvíslega fræðslu í hagfræðislegum efnum, sem oss skortir nú svo tilfinnanlega. Fátt gefur betri bendingu um afkomu manna og efnahag, en húsakynni þau, er þeir lifa í. Það er einu hinn besti vottur um efnahag og menningarstig hverrar þjóðar. Ef mat á húsum og jarðeignum landsins færi fram, mundi það veita oss hina bestu upplýsingu um það, hvað langt eða stutt vjer erum á leið komnir. Annað er það, hvað þýðingarmikið það er fyrir allar lánsstofnanir, að til sje alment jarðamat, sem er hlutfallslega rjett og sjálfu sjer samkvæmt. Og sömu þýðingu gæti það haft fyrir einstaka menn, þegar um kaup eða sölu á fasteignum er að ræða. Á síðari tímum hefir víða verið mesta brall með fasteignir, og hafa óaðgætnir eða ótortryggnir menn oft látið flekast af röngum upplýsingum. Það er kunnugt, hvað oft mat dómkvaddra manna er bygt á veikum grundvelli, svo að þess eru mörg dæmi, að ef þvingunarsala á fasteign hefir farið fram, hefir ekki fengist nema helmingur af matsverði. En hjer er að ræða um mat, sem er miklu tryggilegra, og mundu því lánsstofnanir verða óragari að lána út á fasteignir en þær hingað til hafa verið. Af öllum þessum ástæðum vill nefndin leggja það til, að frv, verði samþykt með þeim breytingum, sem hún hefir stungið upp á að gjörðar væru á því.

Frumv. gjörði að eins ráð fyrir nýju jarðamati, en nefndin leggur til að allar fasteignir landsins verði metnar af nýju. Það eru til ýmsar lóðir og lendur, sem ekki geta heitið jarðir, en eru þó ef til vill verðhærri en flestar jarðeignir í landinu, og virðist meiningarlaust, að matið nái ekki til slíkra eigna. Hitt getur fremur verið skoðunarmál, hvort matið eigi líka að ná til húseigna, en þar sem nefndin telur sjálfsagkt að meta jarðarhúsin með jörðunum, þá þótti henni rjett, að hafa engin hús undanþegin matinu, sjerstaklega þar sem hús, sem eigi eru notuð við ábúð á jörð, eru alstaðar metin til húsaskatts, nema í Reykjavík, en þar er brunabótavirðing látin nægja. Nefndin hefir því hallast að því, að frumv. eigi að ná til allra fasteigna, bæði jarða, húsa og lóða.

Tíma þann, sem frumv. ætlar til matsins, telur nefndin alt of nauman í fyrsta sinn, og leggur því til, að matið fari fram á árunum 1916–1919. Svo sem nefndarálitið ber með sjer, hafði nefndin það einnig fyrir augum, að kostnaðurinn dreifist þá líka á öll þessi ár, og verður því eigi svo tilfinnanlegur sem ella. Matið verður langerfiðast og verst viðureignar í fyrsta sinn, en seinni möt verða miklu auðveldari, og fann því nefndin ekki ástæðu til þess, að breyta tímalengdinni, að því er hin seinni möt snertir.

Nefndin leggur til, að bætt sje við einni grein inn í frv., er verður 8. gr. og hljóðar svo : „Til ábúðarskatts skulu hverjar 150 krónur í matsverði jarða taldar eitt hundrað á landsvísu. En því skal slept til ábúðarskatts, sem verð húsanna kann að fara fram úr þriðjungi af matsverði jarðar. — Húsaskattur af húsum, sem ekki eru notuð við ábúð á jörðu, skal tekinn af matsverði húsanna, að viðbættu matsverði þeirrar lóðar, er hverri húseign fylgir“. Í 2. gr. frv. er gjört ráð fyrir, að jarðir sjeu lagðar í hundruð á landsvísu, en nefndin leggur til að fella það ákvæði burtu. Í staðinn fyrir það á svo að koma það, sem hjer segir, að hverjar 150 kr. í matsverði jarðar skuli taldar eitt hundrað á landsvísu til ábúðarskatts. Nefndinni þótti og rjett að taka fram, að húsaskattinn skyldi einnig taka af matsverði lóðanna. Hjer í Reykjavík er farið eftir brunabótavirðingu einni, er húsaskattur er lagður á, en ekki tekið tillit til lóðanna; en það virðist sanngjarnt, að lóðir, sem sleppa undan ábúðarskatti, geti komið til greina.

Nefndin hefir gjört margar aðrar brtt., og eru þær allar svo ljósar, að þær þurfa væntanlega ekki frekari skýringar við. 17. brtt. er gjörð til varúðar, til þess að menn verði eigi of fljótir á sjer að álykta, að jarðir sjeu lagðar niður, þótt þær hafi legið undir aðra jörð um stund. 19. brtt. er um, að bætt verði inn í frv. nýrri grein um mat á húseignum í kaupstöðum og lóðum, lendum og mannvirkjum, sem vel geta verið mikils virði. 20. brtt. við 5. gr., að í stað orðanna „sameign sveitarmanna“ komi orðin „eign sveita“, er að mestu leyti orðabreyting, en þó getur verið, að afrjettarlönd sjeu eign sveitarinnar. 21. brtt. fer í þá átt, að þrætulönd skuli metin sjer í lagi. Í frv. er gjört ráð fyrir, að þeim sje skift jafnt milli jarða þeirra, er eigna sjer löndin. Nefndinni þótti hitt rjettara.

22. brtt. fer fram á að tveimur nýjum greinum verði bætt við, og verða það 7. og 8. gr. Í 7. gr. er kveðið svo á, að hverja fasteign skuli ákveða svo skýrt, að ekki sje unt að villast um, hver hún sje, og að nafngreina skuli eiganda og notanda hverrar fasteignar. Hina nýju 8. gr., sem nefndin leggur til að bætt verði inn í frv., hefi jeg þegar talað um áður. Þá vil jeg minnast á 27. brtt., sem fer fram á, að í stað „15. júlí“ í 6. gr. komi 15. júlí 1918. Tíminn til þess að framkvæma jarðamatið væri þá 1916 og 1917 og fram til 15. júlí 1918, þá ætti því að vera lokið. Kostnaðurinn við jarðamatið verður síður tilfinnanlegur fyrir landssjóð, þegar hann dreifist niður á nokkur ár, og fyrir matmennina verður kostnaðurinn einnig minni. Jeg gjöri sem sje ráð fyrir að matsmennirnir hafi jafn há laun og sýslunefndarmenn, og þau eru ekki svo há, að þeir geti orðið fullkomlega skaðlausir, ef þeir eru bundnir við matið þann tíma, sem þeim er dýrmætastur, og er því gott að þeir geti valið þann tíma, sem þeir álíta hentugastan fyrir sig, til þessara starfa. 30. brtt, er við 7. gr. og leggur jarðeiganda þær skyldur á herðar, að hann skuli gefa matsmönnum allar þær upplýsingar um fasteignina, sem hann getur. Jeg sje það í 33. brtt., að þar stendur fastæign, en á að vera fasteign, og er að eins prentvilla. Þá er 36. brtt. við 8. gr., sem hljóðar um yfirskattanefndir. Það þótti nauðsynlegt, að bæta inn ákvæði, um að matsnefnd skyldi láta í ljós tillögur sínar áður en yfirskattanefnd breytti mati hennar. Þá er 41. brtt. um að jarðamatið skuli ganga í gildi 1. apríl 1920, og stendur það í sambandi við hvað lengi gjört er ráð fyrir að matið standi yfir. Nefndin gjörir ráð fyrir, að sjálft matið fari fram á árunum 1916, 1917 og fyrri helmingi ársins 1918, en að seinni helmingur ársins 1918 og árið 1919 gangi í brjefaskriftir og prentun bókarinnar og muni því geta þá orðið lokið, svo að bókin geti gengið í gildi 1. apríl 1920. Að því er snertir síðustu grein, þótti sjálfsagt að gamla jarðabókin væri ekki úr gildi numin, fyrr en nýja jarðabókin gengi í gildi.

Jeg held að það sje ekki fleiri atriði, sem ástæða er til að taka fram, fyrr en umræðurnar kunna að gefa tilefni til þess.