20.08.1915
Efri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

92. mál, fasteignamat

Karl Einarsson:

Það er að eins stutt athugasemd út af hinni nýju 8. gr. Jeg sje ekki, að það sje til bóta, að láta gjalda húsaskatt einnig af virðingarverði lóða þeirra, sem húseigninni fylgja. Það er ekki síður nú, og jeg held að það væri engin heimild til þess, samkvæmt húsaskattslögunum. Þá stendur í sömu brtt., að húsaskattur af húsum, sem ekki eru notuð við ábúð á jörð, skuli tekinn o. s. frv. Jeg held að þetta sje ekki heppilegt orðalag. Það eru til hús, sem greiddur er húsaskattur af, og sem notuð eru við ábúð á jörð, t. d. í verslunarstöðum, og falla þau fyrir utan þetta, en jeg hygg að það hafi ekki verið meiningin. Það mætti því orða þetta þannig: „Húsaskattur af skattskyldum húsum“ o. s. frv.