20.08.1915
Efri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

92. mál, fasteignamat

Hákon Kristófersson:

Það er út af 18. brtt, sem mig langar til að gjöra fyrirspurn til nefndarinnar um, hvað meint sje með þessum orðum: „Með hverri jarðeign skal meta sjerstaklega hús þau, er á henni standa, hvort heldur þau eru eign landeiganda eða annara. Sömuleiðis skal meta alls konar hlunnindi jarða og ítök í annara lönd.“ Jeg skil þetta ekki vel. Mig langar til að vita, hvort í jarðarverðinu eiga að vera hús, sem ekki koma jörðinni við og ekki eru eign jarðeiganda. Í hvaða meiningu á t. d. að meta hús, sem ábúandi á en ekki jarðeigandi? Er það til þess að greiða skatt af því, eða til þess að sýna þjóðareignina? Ef svo er ætti það að vera laust við verð jarðarinnar. Mjer finst þetta geta verið villandi, og jeg vil gjarnan heyra skýringu á þessu frá hv. framsm. (E. B.).

Það stendur enn fremur í sömu grein: „Sömuleiðis skal meta alls konar hlunnindi jarða og ítök í annara lönd“. Gjörum nú ráð fyrir, að jarðeigandi geti aldrei notað sjer þau hlunnindi. Jeg þekki dæmi þess á Vesturlandi; það eru ítök, sem kirkja á, sem eru henni alveg notalaus. Hvar er nú rjettlátur mælikvarði á því? Mig langar til að heyra háttv. framsm. (E. B.) gjöra sem besta grein fyrir því, hvernig hann hugsar sjer þetta í framtíðinni, því að svona mikilsverð lög verða að vera nákvæm og alt sem hreinast í þeim. Veit líka að háttv. framsm. hefir manna best sett sig . inn í þessi lög.