13.09.1915
Efri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Framsögumaður (Magnús Pjetursson):

Jeg vildi að eins gjöra stutta athugasemd um tvö atriði.

Fyrst er að minnast á þennan misskilning háttv. þm. Seyðf. (K. F.). Jeg hefi aldrei heyrt þess getið, að talin væri sjerstök ástæða til þess, að veita þeim mönnum launauppbót, sem illa hafa staðið í stöðu sinni. Staðan var stofnuð með þeim launum, sem nú er, en hefði maðurinn staðið vel í stöðu sinni, þá hefði ef til vill verið ástæða til þess að hækka launin eitthvað. Skógræktarstjórinn hefir mælt með því að launin væru hækkuð, til þess að meiri líkindi væru fyrir því, að hæfur maður fengist í stöðuna. Með öðrum orðum til þess að geta losnað við manninn. En jeg fæ ekki, sjeð að beinasti vegurinn til þess, að fá hæfan mann í staðinn, sje sá, að veita þessum manni launauppbót.

Viðvíkjandi því, sem háttv. 6. kgk. þm. (J. Þ.) sagði um launahækkun aðstoðarskjalavarðarins, er það að athuga, að ef tillaga hans nær fram að ganga, þá verður þetta embætti launað með 1800 kr. í stað 1200 kr., í stað þess að rjettara hefði verið að 600 kr. yrðu veittar sem persónuleg launaviðbót til mannsins. Þess vegna. hlýtur nefndin að veiða á móti brtt. hv. 6. kgk. þm. (J. Þ.). Því hvaða meining er í því, að taka af fje því, sem ætlað er þessum manni fyrir alt annað starf og setja það sem launaviðbót við þetta embætti, þó hann nú gegni því.