11.09.1915
Efri deild: 58. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

92. mál, fasteignamat

Framsm. (Eiríkur Briem) :

Eins og framhaldsnefndarálitið ber með sjer og þau þingskjöl, sem þar er vísað til, þá hefir frv. verið töluvert breytt í hv. Nd. Þó eru ekki verulegar breytingar, nema tvær.

Önnur breytingin er sú, að bætt er inn í frv. nýrri yfirmatsnefnd, í stað þess, að hjer var ætlast til þess, að yfirskattanefndir hefðu það starf: Og svo hafa verið settar reglur um nefnd þessa í 9., 10. og 11. grein frv. og að nokkru í 12. grein. Við þetta hefir nefndin ekkert að athuga.

Hin breytingin er um það, að fella burtu 8. gr. frv., eins og það fór hjeðan frá hv. deild: Sú grein var um það, hvernig ætti að greiða ábúðarskatt og húsaskatt eftir þessu nýja mati. En þá má ekki fella úr gildi jarðabókina frá 1861, því með þessu er hætt að telja í jarðahundruðum. Þess vegna yrði ekki hægt að krefja inn ábúðarskatt, ef þetta væri látið vera svo, sem hv. Nd. gekk frá því. Það yrði þá að ganga alveg þegjandi út frá því sem vissu, að ný lög yrðu komin á um þetta, áður en þessi lög kæmust hjer í fult gildi og fulla framkvæmd. En nefndinni virðist að svo megi ekki vera, og því vill hún bæta inn í frumv. nýrri grein um þetta, án þess þó að hún vilji á nokkurn hátt hindra það, að laggjafarvaldið setji hjer um ný lög.

Eftir samtali við ýmsa hv. þm. úr Nd., er hafa látið sig mál þetta skifta, hefir það orðið að samkomulagi, að bætt yrði nýrri grein inn í frv., og er brtt. um það á þgskj. 912. En með því að það gat verið vafamál, hvernig ætti að reikna húsin, þá ber nefndin fram brtt. á þgskj. 927; er það að eins til að taka það skýrara fram, að húsaverðið, sem telja má með, er helmingur af verði jarðarinnar án húsa, en að öðru leyti er eigi meint nein efnisbreyting með brtt. á þgskj. 927. Sú skekkja hefir orðið á þgskj. 927, að það er talin breyting við 2. málsgrein í 3. brtt. á þgskj. 912, í stað þess, að það er breyting við 2: málslið í 1. málsgrein á 3. brtt. á þgskj. 912, en jeg vona að þetta villi engan.

Þá vil jeg taka það fram, að fyrir 15 ár komi 50 ár. Þetta er skekkja, sem komist hefir inn, því engin brtt. hefir komið fram í þá átt. 2. brtt. sú, er nefndin hefir komið fram með, er að eins orðabreyting, til þess að komast hjá kostnaði, sem er óhjákvæmilegur, ef meta á nákvæmlega alt og lýsa t. d. skilrúmum. 4. og 5. brtt. eru að eins smávægilegar, og 6. brtt. til þess, ef nýrri grein yrði bætt við. Þar var líka skökk tilvitnun, 15. gr. í stað 14. gr., en sem nú verður 16. gr. Að öðru leyti eru breytingarnar til bóta, t. d. 2. gr. 3. gr. er alveg bætt við, og því þar með, að hreppsnefndir veiti aðstoð sína við matið. Nefndin getur og fallist á, að ef ágreiningur verður, þá skeri sýslumaður úr samkvæmt 3. gr., og hún hefir ekkert að athuga við viðbótina um eyðijarðir.

Í 5. gr. er tekið fram, að meta skuli sjerstaklega mannvirki og umbætur á jörðinni síðustu 10 árin. Í nefndarálitinu í Nd. er tekið fram, að það sje gjört sjerstaklega til þess, að umbætur þessar komi ekki til skatta, og það felst nefndin hjer á.

Í Nd. hefir verið feld burtu breyting, sem hjer var gjörð við 3. umr., eftir bendingu eins hv. þm. um að hús, sem er eign annara en landeigenda, geti haft áhrif á matið, en nefndin hjer hefir ekki sjeð ástæðu til þess að koma með brtt. þessu viðvíkjandi.

Þegar mat fer fram í fyrsta sinni, er ákveðið að nefna skuli landamerki, og má gjöra það með því, að vitna í landamerkjabrjef, en sje það ekki til, þá verður að tilgreina mörkin, og ef ágreiningur er um þau, þá getur þar orðið um þrætuland að ræða. Þá er ekki fleira, nema þær breytingar, sem að sjálfsögðu leiða að því, sem jeg hefi talað um.