14.09.1915
Efri deild: 61. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Hákon Kristófersson :

Eins og nefndarálitið ber með sjer, kom jeg með þá tillögu, að frumv. næði ekki fram að ganga. Jeg lít svo á, að ef frumv. er samþ., þá sje ekki óverulegum skatti dembt á framleiðsluna, sjerstaklega á þær afurðir, sem framleiddar eru úr sjónum, einkum þegar þess er gætt, að þegar hvílir nú tollur á fiski og síld; má því svo kalla, að hjer sje um stórskatt að ræða, að því er þessar vörutegundir snertir.

Það er satt, að vörur eru nú í háu verði, en framleiðslukostnaðurinn er líka langt fram yfir það, sem venjulegt er, svo jeg efast um, að arður verði stórum meiri af sjávarútvegi í ár en að undanförnu. Það kann að vera, að veiðar á seglskipum gefi eitthvað meira í aðra hönd.

Þótt ýmislegt, sem til útgjörðar heyrir, hafi hækkað í verði, kemst þó ekkert í samanburð við verðhækkunina á salti.

Með tilliti til verðhækkunarinnar á kolum, kemur það lang tilfinnanlegast niður á sjómönnum. Jeg hefi fengið upplýsingar hjá útgerðarmönnum um það, að hagurinn af útgjörð muni ekkert vera meiri en í meðalári. Hví hefir það ekki verið áður gjört, að leggja hærra útflutningsgjald á fisk, úr því að hagurinn er ekkert meiri nú en oft áður? En þó nú færi svo, að einhver ágóði yrði hjá útgjörðarmönnum í ár, þá væri það ekki nema vel farið, því bæði gæti slíkt hvatt menn til framfara fyrirtækja, og svo yrði það til að jafna upp halla, sem áður kann að hafa verið. En það mun vera hið sanna í þessu máli, að flytjendur frv. þessa sjá ofsjónum yfir háu verði hjá útgjörðar- og sjómönnum, eins og hjá bændum, og vilja fá einhvern skatt lagðan á framleiðslu þeirra, svo frekar megi miðla einhverjum þurfamanni, og vitanlega eru þeir margir, sem kjósa heldur að lifa á þann hátt, að reyna að fá fje frá þinginu, auðvitað fyrir eitthvert vísindalegt kák, heldur en að vera í flokki þeirra manna, sem reyna að framleiða og eru nú mest öfundaðir. Þess vil jeg líka geta, að jeg skil ekki, hvers vegna háttv. flutnm. koma með þetta frv. nú fyrst á slitadögum þingsins, vitandi það, að margar afurðir eru farnar út úr landinu, sem t. d. útlendingar hafa átt, og þeir hefðu þó engu síður átt að vera skyldir að borga af en við. Jeg hefði betur kunnað við, að bæði innlendir menn og útlendir ættu að borga tollinn af afla sínum, en nú munu t. d. Norðmenn búnir að flytja út mest alla sína síld, og því fríir við skattgreiðslu af henni. Jeg get þess vegna ekki sjeð, ef rjettlætingarvert hefði verið að koma með frv., hvers vegna það kom þá ekki fyrr. Já, það er ekki einungis tollhækkunin; hún veg mjer ekki feikilega í augum, því að jeg býst ekki við, að hún setji neinn á höfuðið, en það er aðferðin, sem notuð er, til þess að koma þessu frv. á, einkum í hv. Nd., og jeg hygg að eitthvað svipað hafi átt sjer stað hjer í Ed. Mönnum er kunnugt, að þessi vandræða- eða velferðar- eða bjargráðanefnd, eða hvað hún heitir, kom með frv., sem var felt bæði frá nefnd og 2. umr. í Nd. Þá sama daginn áttu margir fund með sjer og bundust þar með loforðum, ef ekki helgum svardögum, að þeir skyldu verða samtaka um það, að fella öll frv., sem færu fram á tollhækkun. (Steingrímur Jónsson : Voru það þversummenn ?). Það skal jeg ekki segja, en það voru menn úr sama flokki og háttv. fyrirspyrjandi (Stgr. J.), og víst bæði úr langsum- og krossflokki. Þetta er ekki sagt í þeirri meiningu að uppnefna flokkana, en mjer datt það í hug sem sennilegt, að ef Sjálfstæðismenn væru kallaðir þversum menn, af því jeg telst til þeirra, að þá væru Sambandsm. rjettnefndir kross menn. Það voru menn af öllum flokkum í þinginu. Jeg hafði þá æru að vera boðaður á þenna fund. Jeg skal ekki segja, hvort þessa aðferð hefði átt að hafa gagnvart frumv., en hún varð nú ofan á. Jeg heyri að þm. úr Nd. er að segja, að jeg eigi ekki að vera að ljúga, en jeg vil spyrja þann hv. þm., á jeg að bæta meiri sannleik við? Það var margt talað á fundinum þeim, og margir voru skörulegri þá, en jeg hygg þeir hafi verið, þá er flokksmenn þeirra fóru að ávíta þá á flokksfundum fyrir tiltækið. Afleiðingin varð, að þessari nefnd með mörgu nöfnin þótti sjer misboðið og tók það ráð að segja af sjer. Jeg skal ekki segja nema það hafi verið hið hyggilegasta af henni, og um leið það, sem best henti eftir atvikum. Eftir allar fyrirgefningarbænirnar og traustyfirlýsingarnar í sameinuðu þingi virðist mjer, að allir þessir menn; sem enga tollhækkun vildu, hafi látið kúgast af sínum flokki og gangi nú svo fast fram, að þeir vilji enga brtt. aðhyllast. Jeg skal engan dóm á það leggja, en vil segja það í sambandi við þetta, að þeir menn, sem á þessum fundi voru, áttu rjett á að vita að von væri á breytingu, en ekki þó þeirri, að þrír flokkar tækju sig saman með leynd og ljetu okkur ekkert vita, sem köllum okkur svo nefnda Sjálfstæðism., en erum eðlilega uppnefndir með þvers um nafni. Mjer finst þetta svo óheiðarleg aðferð, að jeg mundi ekki ganga með frv., þó jeg gæti vel unað við það að öðru leyti;. þykir það líka nærri óþarfi. Hvers vegna var ekki komið með svona frv. 1913? Þá. kom jeg fyrst sjálfur á þing, og jeg man það, að mjer ofbauð sá tekjuhalli, er var þá á fjárlögunum. Það segja kann ske sumir að þetta frv. sje fram komið vegna tekjuhallans, og það er auðvitað æskilegt að jafna hann, en er þess frekari þörf nú en svo oft áður ?

Jeg vil fullyrða, að engin hefði komið með þetta frv., ef ekki hefði verið þetta. háa verð á öllum land- og sjávarafurðum. Þingið vill ekki lofa mönnum að njóta þess þetta eina einasta ár. Mjer vitanlega er ekki gjört mikið af hálfu hins opinbera til þess að hjálpa mönnum í misæri, og þetta ár í ár er misæri. Nú kemur það harðast niður á þessar stjettir, en í fyrra og næsta ár harðast niður á hinum. Nú finst þinginu verðið of hátt og því nauðsynlegt að reisa skorður við því. Háttv. framsm. (B. Þ.) gat þess, að það hefði farist fyrir brtt., sem einn af nefndarmönnum, hv. þm. Vestm. (K. E.), taldi: nauðsynlega. Jeg bjóst við þessari brtt., og af tvennu illu hefði mjer þótt hún skárri en frv., þó ljótt sje frá að segja.

Þá er mint á að meðal annars, sem rjettlæti framgang frv., sje fjárvöntunin; það verði að jafna hallann í fjárlögunum, en til þess er ekki frekari nauðsyn nú en oftast áður. Enda virðist líka einmitt framkoma ýmsra þm. benda á það, að þeim sje ekki svo ákaflega sárt um tekjuhallann. (Sigurður Stefánsson: Sbr. Fúlilækur). Samanber margt og margt, bitlinga og fleira; launahækkun getur að vísu á stundum verið rjettlát, en sumt af því, sem flotið. hefir í gegn 1914, mun verða talið efamál hve byggist á miklu rjettlæti. (Jón Þorkelsson: Ekki var jeg á þingi þá, 1914). Nei, en 1915, það var leiðinlegt að ein launaviðbótin flaut þar á atkvæði, sem hún hefði ekki átt að fljóta á. Jeg ætlaði ekki að fara að tala um það nú, en af því hv. 6. kgk. (J. Þ.) fór að grípa fram í, þá vildi jeg minna hann á þetta, ef það hefði fallið í gleymsku hjá hv. þm. (Jón Þorkelsson: 1914?). Nei, mjer varð eðlilega mismæli, sem oftar, ætlaði að segja 1915; það var gott, að hv. þm. benti mjer á þetta mismæli, mjer hefði þótt leitt, hefði jeg ekki getað leiðrjett það einhvern veginn núna.

Það voru fyrir skömmu frv. á ferðinni í hv. Nd. um tekjuskatt af embættislaunum og stimpilgjald. Þótt það hefði ekki orðið nema 10–15 aura frímerki á hvern víxil eða verðbrjef, þá hefði það safnast þegar saman hefði verið komið. Þessi frv. voru bæði feld í Nd., annaðhvort af því, að hún hefir haldið, að þess gjörðist ekki þörf, eða búist við, að þegar hún væri búin að unga út þessum fúleggjum sínum, þá væri hag landssjóðs borgið. (Jón Þorkelsson: Þetta eru fullrjettisorð).

Hv. framsm. (B. Þ.) sagði, að ef brtt. yrði samþ., þá gæti það felt frv. Jeg lít öðru vísi á, því að sá hraði hefir oft verið á málum hjer í þinglok, að þau hafa verið afgreidd á fáum klukkutímum.

Hv. framsm. (B. Þ.) sagði, að útgjörðarmenn myndu ekki finna til þessa skatts. En það eru svo margvísleg gjöld, sem hvíla nú á útgerðarmönnum og erfiðleikar margs konar; og þess ber einnig að gæta, þegar litið er á hagnaðarhliðina.

Jeg segi svo ekki meira að sinni, þótt nóg hafi jeg til, en vildi gjarna að þetta frv. yrði jarðað sómasamlega, en gangi það fram, þá gengur það fram fyrir ofbeldi og kúgun, er beitt hefir verið af fylgismönnum þess.