14.09.1915
Efri deild: 61. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Steingrímur Jónsson:

Það eru að eins tvær lítilfjörlegar athugasemdir, sem jeg vildi gjöra við ræðu háttv. þm. Vestm(K. E.).

Hann var að kveina yfir gjaldinu á sjávarafurðunum, og um að þær væru áður tollaðar.

Útflutningsgjald á fiski og lýsi er frá 1879, mjög lágt gjald, og var það gjört til þess, að jafna ójöfnuð þann, sem lögin um lausafjárskatt gjörðu á milli landbúnaðar og sjávarútvegs; og hefir reynslan leitt í ljós, að þetta gjald hefir eigi gjört annað en bæta úr þessu misrjetti, er átti sjer stað. Nokkuð öðru máli er gegna um síldina. Á hana var lagt útflutningsgjald 1907, en það var miðað við það, að gjaldið lenti að mestu leyti á útlendingum. Þetta er að vísu nokkuð farið að breytast, og Íslendingar farnir að reka miklar síldveiðar, en jeg þykist samt geta fullvissað menn um það, að þetta nýja gjald mun ekki standa síldveiðunum að neinu leyti fyrir þrifum.

Annars getur enginn maður, ekki einu sinni þm. Vestm. (K. E.) borið slíka útúrdúra fyrir brjósti sínu, sem aðalatriði málsins.

Háttv. þm. Vestm. (K. E.) var að reikna gjaldið, sem kæmi á sjávarafurðirnar (fiskinn) eftir frumvarpinu. Jeg hygg, að þessi útreikningur hins háttv. þingmanns sje rangur.

Jeg er dálítið kunnugur útreikningi þeim, sem stendur í frumvarpinu, og get því skýrt frá því, á hvaða grundvelli hann er bygður. Grundvöllur hans er í fám orðum sá, að verðið sje þar um það bil hæsta verð, er fjekkst á þessum afurðum fyrir stríðið.

Samkvæmt 3. gr. 1. lið er þorskur nr. 1. gjaldfrjáls, ef verðið á skipundi fer ekki yfir 92 krónur og 80 aura, og hærra en það mun það ekki hafa verið, áður en stríðið fór að hafa áhrif á, þorskverðið.

Í lok júlímánaðar var verð á þorski nr. 1 orðið 122 krónur og í lok ágústmánaðar, eða um það leyti, fjekk jeg upplýsingar um verðið á honum hjá fiskkaupmanni, og var það þá komið upp í 130 krónur.

Svona er verðið núna, en fyrir stríðið var það alt annað, en við það verð eru miðaðar tölur þær, eða verð, sem tilgreint er í þriðju grein.

Og alveg eins og farið hefir um þorskverðið, eins hefir það farið um ýsu, smáfisk og aðrar sjávarafurðir. Það getur því ekki verið rjett, er háttv. þm. Vestm. var að reikna út, að verðið á Labradorfiski væri ekki rjett, 57 kr. og 60 au. fyrir skippundið, því það er bygt á sama grundvelli og annar útreikningur í frumvarpinu.

Jeg hefi þá skýrt frá, á hverju útreikningur frumvarpsins er bygður, og þá jafnframt mótmælt ummælum hv. þm. Vestm. (K. E.) um tjeð efni.

Jeg vil ekki fjölyrða meira um málið, því jeg vil ekki svara háttv. þm. Barð. (H. K.) því ræða hans bar það með sjer, mjög greinilega og ótvírætt, að hann hafði fengið úti í haga einhverjar skröksögur um þingið. Og þótt maður heyri hagasögur þessar, þá er ekki ástæða til að svara þeim. Það er vitanlega altaf nóg til af sögum, er mætti flytja hjer inn í þingið, en eg tel það undir virðingu minni að gjöra svo.