14.09.1915
Efri deild: 61. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Jósef Björnsson :

Mál það, sem hjer liggur fyrir, er vandamál hið mesta, og svo er ætíð, þegar um skattamál er að ræða. Og það er sjerstaklega hætt við því, þegar skattar eru lagðir á, að þeir komi ranglátlega niður á gjaldþol manna.

Hjer er farið fram á, að leggja útflutningstoll á íslenskar afurðir. Tollur þessi nær að eins til þess verðauka, sem nú er fram yfir vanalegt hæsta verð vörunnar. Er tollur þessi því sjerstakur í sinni röð, en hins vegar er hann, að minni hyggju margfalt betri, en ef tollurinn væri miðaður við allt verðið. Tollurinn fer þá minkandi er varan fellur í verði, og hverfur er varan er komin niður í hið venjulega hæsta verð sitt fyrir stríðið. Hann er því í eðli sínu að eins bráðabirgða ráðstöfun, sem ekki getur staðið, nema meðan á stríðinu stendur, enda má ekki gjöra það að minni hyggju, af því jeg tel alla útflutningstolla hættulega fyrir framleiðsluna í landinu, eins og jeg áður hefi tekið fram hjer í deildinni.

En nú kann einhver að spyrja : Var nokkur ástæða til þess að koma fram með þetta ?

Til þess er því að svara, að það verður að líta á það, hver tilgangurinn er.

Í fyrsta lagi er það tilgangurinn, að jafna tekjuhallann, því þótt það sje eigi beinlínis gjört, því tekjuhallinn stendur eftir sem áður í fjárlögunum, þá er það gjört óbeinlínis með því, að ástæða er til að ætla, að tollurinn gefi svo mikið fje, að eigi þurfi að taka fje af viðlagasjóði, til að jafna tekjuhalla fjárlaganna, sem yrði óhjákvæmilegt, ef tekjur landsins væru ekki auknar, og yrðu ekki meiri en áætlað er.

Þá má í öðru lagi nefna það atriði, að nú er talað um það, og allir búast við því, að það komi fyrir, að stjórnin verði að tryggja landinu matvöruforða og fleiri nauðsynjavörur. Þessar vörur verða keyptar því háa verði, sem nú er. Verði þær svo geymdar til öryggis, sem líklegt er, þá má búast við verðfalli á vörunum innan þess tíma að þær verða seldar. Með þennan skaða situr landssjóður. Svo má og búast við, að landssjóður beri ekki upp að fullu við söluna, kostnað og rýrnun við geymslu varanna.

Getur því vel orðið talsverður halli á vörum þessum, og hann yrði landssjóður að bera. Það er því fleira en eitt, sem bendir til þess, að heppilegt sje að tryggja landið fjárhagslega betur en áður. Þó býst jeg við, að nokkuð megi rökstyðja, að þetta, sem jeg hefi bent á, yrði ekki svo stórvægilegt, að ekki mætti bjargast frá því. En þá spyr jeg: Er hyggilegt að taka halla þann síðar meir af landsmönnum, þegar verð allt er lækkað, sem verða kann af þessu, eða fyrirfram, jafnhliða hinu háa verði, sem nú er? Ýmsir af þeim, sem talað hafa, eru á því, að gjaldþol manna sje óvenjulega gott sem stendur, en það verða menn að játa, að engin trygging er fyrir, að það verði svo gott framvegis, þegar ekki verður hjá komist, að taka fje, til þess að standast lögákveðin gjöld landssjóðs, og því er ekki sagt að óyggilegt sje, að skjóta neinu á frest. Óvíst, að tollar komi þá betur við en nú, þótt mjög leitt sje að taka þetta gjald að framleiðendum fornspurðum. Verð jeg þess vegna fyrir mitt leyti, þó jeg sje mótfallinn því að leggja á útflutningstolla sem fastar skattaálögur, að taka það fram, að þetta er undir svo sjerstökum ástæðum, og fellur niður af sjálfu sjer, að jeg þess vegna neyðist til að fylgja málinu. Nú hefir það valdið ágreiningi, hvort gjaldið kæmi rjettilega niður á vörunni. Brtt. er fram komin hjer í deildinni, sem fer fram á, að gjaldið á öllum fiski, nema síld, sje sett þrisvar sinnum lægra en af landafurðum. Þetta byggist á því, að hjer er gengið út frá, að gjaldfrelsismarkið sje sett lægra en á landafurðum, en um það efast jeg. Hitt þykir mjer líklegra, að það sje ekki sett lægra en í síðari liðunum. Þó gæti ástæðan líka verið sú, að langt um örðugra sje að stunda atvinnu til sjávar, og geti því ekki náð nokkurri átt, að leggja á sjávarafurðir sama skatt og á landafurðir. Til þess að rökstyðja það, er því haldið fram, að kol og annað til botnvörpuútgjörðar hafi hækkað mjög í verði, og veit jeg vel að það er satt, og sömuleiðis steinolía og salt, en kol þó langmest. Hins vegar hefir kaup manna ekki hækkað svo mjög; skip þau sömu og áður, og ýmislegt annað, sem ekki hefir hækkað neitt til muna.

Þegar litið er á fiskiútveginn í heild sinni, þá er að vísu mikið, sem veitt er á botnvörpuskip, en líka er mikið, sem veitt er á mótorbáta kring um land allt, og olían, sem þeir nota, hefir ekki hækkað svo mjög, eða um ca. 25%. Má þá auðvitað segja með sanni, að botnvörpungarnir verði harðast úti, sökum kolanna. Hins vegar er verðið orðið svo hátt á öllum sjávarafurðum, að jeg hygg, að arðurinm verði mikið meiri en í meðalári. Eitt má og taka fram, að gjaldþol manna byggist ekki eingöngu á yfirstandandi tíma, heldur líka á undirbúningi frá liðnum tíma, og þegar litið er til liðna tímans, er augljóst, að gjaldþolið er betra til sjávar en lands, því síðustu tvö árin hefir verið mun betri til sjávar. Þess vegna lít jeg svo á, að sjávarútvegsmenn hafi verið allvel undir stríðið búnir, en hvernig var það til sveita? Í sambandi við það get jeg ekki stilt mig um að minnast á sumarið 1913. Allir vita hvað það sumar var slæmt,. sjerstaklega um Suður- og Vesturland og nokkurn hluta af Norðurlandi. Veturinn 1913–1914 var harður vetur og vorið afar slæmt, og allir geta sagt sjer, hvernig ástandið hefir verið, er sumarið á undan var slæmt. Þá var gjaldþol manna lítið, hey voru lítil og ill, og margir urðu að kaupa mat til fóðurs, og hleyptu sjer við það í stórskuldir. Auk þess var lambadauði mikill það vor, einkum í sumum hjeruðum landsins. Þetta var þá undirbúningur bænda, stórskuldir fyrir fóður til, þess að halda við bústofnni sínum, sem þeir þó mistu. Nú segja þeir, sem flytja brtt., að bændurnir þoli þrisvar sinnum hærri skatt en sjávarútvegsmenn. Jeg veit vel, að sumar landafurðir hafa stigið mikið í verði, t. d. ull, sem nú mun vera um 130% hærri en áður, og kjöt mun að líkindum vera 40–50% hærra, eftir þeirri sölu að dæma, sem þegar hefir farið fram. Um aðrar afurðir, t. d. gærur, vita menn ekki enn gjörla, en heyrt hefi jeg, að ekkert tilboð tengist í þær, og koma þær því ekki til greina að svo stöddu. En sjávarafurðir hafa engu síður hækkað í verði, t. d. lýsi 400–500%, og margar fleiri sjávarafurðir hækkað tiltölulega meira en landafurðirnar.

Jeg verð í sambandi við þetta að minnast á það, sem hv. þm. Vestm. (K. E.) hjelt fram, að 2 kr. pr. kíló væri of hátt mark fyrir ull, af því hún hefði ekki komist í svo hátt verð áður. Síðastliðið ár var hún á nokkrum stöðum 2 kr. pr. kíló, áður en stríðið byrjaði. Var það auðvitað á Norðurlandi, en jeg vil geta þess, að ull hefir komist upp fyrir þetta, þótt hún hafi líka stundum verið lægri. Sama er að segja um verð á gærum og mislitri vorull, sem hv. þm. mintist á, að væri of hátt sett í frumv; verð jeg að halda því fram, að það sje ekki á rökum bygt. Mislit vorull hefir áður fyrr komist upp í 65 aura pundið og jafnvel hærra, en hvað gærum viðvíkur, þá hafa þær verið í 50 aurum, og jafnvel nokkuð þar yfir, pundið áður, og er það ekki mikið hærra en hið venjulega verð á þeim, þó þær hafi farið smáhækkandi. Hv. þm. Vestm. (K. E.) mintist á verðlagsskrá, og var það vel farið, því þar má að nokkru sjá hlutfallið á milli verðsins á land- og sjávarafurðum. Vel veit jeg það, að verðlagsskrár okkar eru ekki ábyggilegar, en hitt veit jeg líka, að eftir því sem þær hækka, þá hækkar líka lausafjárskattur sá, er hvílir á landbændum, og mun hv. deildarmönnum það fullkunnugt. Að vísu er hækkun sú ekki mikil, en þó verður það nokkuð,. sem munar næsta ár, þar eð verðlagsskráin verður. há. Verð jeg því að taka í þann strenginn, að verði farið að raska frv. og gjöra mismun á gjaldinu, þá er hætt við að frumv. gangi ekki fram. Hitt er aftur athugavert, hvort ekki ætti að hækka markið, þar sem mönnum finst það of lágt, og hins vegar hvort ekki fæst samkomulag um að lækka gjaldið,. enda ætti að vera hægt að rökstyðja það, sem rjettlátast þykir, að því er tollinn snertir.

Mjer hefir að nokkru leyti virst af umræðunum, sem farið hafa fram í sumar að hv. þm. áliti það einhverja Paradís sem bændurnir lifðu í. En menn hafa gleymt því, að það eru þeir, sem við mest. harðærið hafa átt að búa, og þó hvergi kvartað, enda eru þeir orðnir vanastir við, þó ekki leiki alt í lyndi. Menn hafa hugsað, að tekjur bændanna væru alveg afskaplegar í ár, en það eina, sem hækkað hefir, er ullin, en kjötið eigum við enn þá óselt mest, enda þótt verðið á því verði líklega hátt. En þar er þess að gæta, að mörg hjeruð hafa að eins verið að rjetta við eftir illu árin á undan, og geta því ekki fargað mörgu fje til slátrunar.

Skal jeg svo ekki fjölyrða meir, að því er þetta mál snertir, en jeg finn ekki ástæðu til að gjöra hjer mikinn mismun. Til mála gæti komið að lækka ögn við botnvörpungans, en að það sje svo mikið eins og brtt. vill, sje jeg ekki að sje rjettlátt. Mun jeg því greiða atkv. á móti. brtt., en með frv. óbreyttu.