14.09.1915
Efri deild: 61. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Kristinn Daníelsson :

Jeg þykist vita að það muni koma sjer vel að vera stuttorður, og mun jeg verða það, en jeg kann samt betur við, að láta í ljós hvernig jeg liti á þetta mál.

Jeg var ekki á móti því, að lagður væri lítils háttar skattur á gróða þann, sem afárferðinu hlýtst, og nota hann svo handa þeim, sem fyrir mestu skakkafallinu verða sökum dýrtíðarinnar. Hjer er þó að eins gjört ráð fyrir, að þetta sje fyrir landssjóð, en ekki ætlað til matarkaupa. Þó setti fje þetta að geta orðið til þess að hlaupa undir bagga með sveitarfjelögum með smálán. Skal jeg játa það, að þó jeg sje þessu hlyntur, þá dámar mjer samt ekki, er gjört er ráð fyrir, að fje þetta verði allt að 800 þús. kr., en nú heyri jeg, að það sje komið niður í 500 kr.; álít jeg það betra, en þó alllangt farið. Vona jeg að hv. þm. athugi þetta vel, því hjer er um stórmál að ræða. Verst er, að undirbúningstíminn er svo naumur, því annars hefði mátt setja nefnd í málið til athugunar. Jeg get ekki neitað því, þó ekki þýði nú um að fást, að jeg hefði kosið að vara, sem nú þegar er seld, hefði verið undanþegin tollinum. Því ekki er gott að vita, hvað dýrtíðin stendur lengi.

En eins og þessi brtt. ber með sjer, vildi jeg sjerstaklega vera því fylgjandi, að sjávarútveginum yrði hlíft eins og unt er, og get jeg tekið undir alt, sem hv. þm. Vestm. (K. E.) sagði um það mál, og jafnframt bætt því við, sem jeg held ekki hafi verið tekið fram af neinum, að þetta gjald kemur langmest niður á fátækasta hluta þjóðarinnar, á þeim, sem örðugast eiga, ef til alvarlegrar dýrtíðar kemur. Jeg er talsvert kunnugur bæði í land- og sjávarsveitum, og jeg hefi veitt því eftirtekt, að fátækast fólk er í þjettbygðum sjávarþorpum og í kauptúnum, og það er á þetta fólk, sem þetta gjald kemur harðast niður.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta; en vildi sem best mjer væri unt mæla með því, að brtt. væru samþyktar, og vona að hv. deild taki þeim með sanngirni, þó jeg hins vegar verði að játa, að ekki er mikil ástæða til slíkrar vonar, eftir því, sem nú eru skipuð sæti hjer í deildinni. Mjer þótti leitt að vera á móti málinu í heild sinni, en læt ósagt, hvernig jeg greiði atkv., ef brtt. eru feldar.