19.08.1915
Efri deild: 37. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Framsögumaður (Magn. Pjetursson):

Eins og hátttv. deildarmenn sjá, hefi frv. hækkað um 5613 kr., við meðferðina í neðri deild. Mest er sú hækkun á 4. gr., hjer um bil 4000 kr. Ef tillögur nefndarinnar ná fram að ganga, eru fullar líkur til, að þetta hækki enn meir. Áður en jeg fer lengra, ætla eg að undirstrika það, sem sagt er í nál., um fjárveitinguna til þess að gegna embætti yfirdómara Jóns Jenssonar. Það er alls ekki tilætlunin, að stjórnin, eigi framvegis að ganga þessa braut, þó slíkt hafi áður komið fyrir, þá ætti það ekki að koma fyrir oftar, en nefndin leggur til, að í þetta skifti verði fjárveitingin samþykt, af alveg sjerstökum ástæðum.

Þá kem jeg að 1. brtt. á þgskj. 519. Hún fer fram á 18000 kr. hækkun á tillagi til Vífilsstaðahælisins. Eins og getið er um í nefndarálitinu, er tekjuhallinn af hælinu 2110 kr. 35 a. Jeg býst við að sumum hv. þingdeildarmönnum þyki nokkuð djúpt í árinni tekið, og vaxi í augum þessi feiknamikli tekjuhalli á rekstri Heilsuhælisins, ekki síst þegar þess er gætt, að Heilsuhælið hefir þegar áður, á yfirstandandi fjárhagstímabili, fengið 73 þús. kr. Þessi tekjuhalli minkar þó í rauninni talsvert, þegar tekið er tillit til, að á nýári á Vífilstaðahælið töluverðar birgðir, sem borgaðar hafa verið af þessu fje, en sem notaðar verða á næsta ári; t. d. eru nú þegar keypt kol alveg til vetrarins. Að tekjuhallinn er svo mikill er fyrst og fremst að kenna þeirri verðhækkun, sem orðið hefir á allri innlendri og útlendri vöru, og nú er jafnvel búist við, að vörur hækki enn meir, en aftur á móti, hefur daggjald sjúklinganna aldrei verið hækkað. Nefndinni þótti undarlegt, að það hafði ekki verið gjört, eitthvað í hlutfalli við vöruhækkunina. Eftir því sem út lítur, hefir landsstjórnin ráðið frá því, að hækkað yrði ofan í tillögur Heilsuhælisstjórnarinnar. Okkur finst ekki lengur megi svo til ganga; en nauðsyn beri til að hækka dagpeningana, og það því fremur, sem á flestum ef ekki öllum sjúkrahúsum landsins, mun þegar hafa verið hækkað meðlag með sjúklingum. Nefndin leggur það til, að á sambýlisstofunum verði hækkað upp í 2 kr. á dag og hlutfallslega á einbýlisstofunum, og vill gjöra það að skilyrði fyrir því, að þessi aukni landssjóðsstyrkur verði útborgaður. Það mundi nema 4000 kr. á. þessum tíma, ef aðsóknin yrði svipuð og verið hefir. Að vísu verður tekjuaukinn, ef hann nær 4000 kr., heldur meiri en gjört er ráð fyrir tekjuhallanum, en nefndin hefir þó ekki þorað, að fara lengra niður en í 18000 kr., því ekki er ómögulegt, að aðsóknin minki nokkuð við hækkun fæðispeninganna.

Þá kemur 2. brtt., sem er við 5, gr. Þar er engu við það að bæta, sem stendur í nefndarálitinu. Sú skoðun varð ofaná hjá nefndinni, að landssjóður ætti ekki að borga meira út en honum bæri, samkvæmt lögum eða samningum.

Þá er 3. brtt., sömuleiðis við 5. gr. Hún fer fram á að fella burtu 250 kr., sem bætt hafði verið við laun háskólakennara í hv. Nd. Brtt. kom frá hæstv. ráðherra og jeg býst við að hann komi og skýri frá því efni nánar. Þetta átti að vera launaviðbót við prófessors Björn M. Olsen, sem samkvæmt Háskólalögum hafði ekki getað, að því er launahækkun snertir, fylgst með prófessorunum Jóni Helgasyni og Lárusi H. Bjarnason. Þar sem viðkomandi maður hefir 4000 kr. í árslaun, sá nefndin. enga ástæðu til að hækka laun hans, fram yfir það, sem hann á kröfu til lögum: samkvæmt.

4. brtt. fer fram á að fella burtu styrkinn til Fossvallasmjörbúsins. Það er einkennilegt, að þessi fjárveiting skuli vera að flækjast enn í fjáraukalögum, þar sem umsóknir um styrk þenna kom ekki fyr en eftir að styrknum til smjörbúanna hafði verið úthlutað. Nefndinni þótti því næsta lítil ástæða til að veita þessu smjörbúi þenna styrk. Þetta smjörbú ber ekki meir skarðan hlut frá borði en ýms önnur. Mjer er sagt, að það hafi verið komið nærri 10 ára aldursmarkinu, og því búið að njóta styrks í mörg ár, en þar sem allur styrkur til smjörbúa var feldur niður í einu fyrirvaralaust, hafa yngri smjörbúin hlotið að verða miklu ver úti, og því síður ástæða til að hlaða undir þetta.

5. brtt. fer fram á að feld sje burt heimild til að endurborga Sláturfjelagi Suðurlands vörutoll af endursendu kjöti. Ef sú heimild yrði samþ. hjer í hv. deild, vil jeg benda á, að það gæti dregið talsverðan dilk á eftir sjer. Það er enginn vafi á því, að víðar á landinu hafa verið fluttar aftur inn íslenskar vörur, sem vörutollur hefir verið greiddur af. Ef heimild til endurgreiðslu er veitt í eitt skifti, koma sjálfsagt allir á eftir, sem jafnan rjett eiga, og það frá öllum tímanum síðan vörutollslögin gengu í gildi. Ef um sanngjarna kröfu er að ræða, nær hún vitanlega jafnt til allra, en nefndinni finst, að sú braut, sem þá væri út á gengið, sje of breið, og leggur því á móti henni. Et þingið færi út á þessa braut, gætu það orðið mikil útgjöld fyrir landssjóðinn. Þetta verða hv. deildarm. að athuga vel.

Síðasta brtt. nefndarinnar er um eftirlaun Skúla Thoroddsens. Þetta mál er þannig vaxið, að þegar eftirlaun Sk. Th. voru ákveðin, var ekki farið eftir því, sem hann sjálfur hafði gefið upp um kostnað við embættisrekstur. En hann hafði reiknað það 350 kr., en var sett 850 kr., eftir því sem annar maður, er um tíma gengdi embættinu, gaf upp. Ef farið er eftir öðrum sýslumönnum, sem um sama leyti og Sk. Th. fengu lausn frá embætti, þá eru þessar 350 kr., í samræmi við þá alla. Getur því varla nokkurum blandast hugur um, að Sk. Th, hafi verið beittur misrjetti. Það er þá og enn fremur upplýst, að hann hefir ekki haft skrifara, og því ein sönnun enn fyrir að hans útreikningur var rjettur. Ef eftirlaun Sk. Th. væru reiknuð út frá þessu, verða þau 1712 kr., en ekki 1752 kr. sem og útreiknað var í háttv. neðri deild.

Í staðinn fyrir 1500 kr. kemur því 1712 kr., það verða 200 kr. á ári, fyrir utan vaxtalap. Jeg tel sjálfsagt, að ef mönnum kemur saman um, sem jeg ekki efast um, að misrjetti hafi verið beitt við hann, þá sje og sjálfsagt að bæta honum skaðann. Eru þá tvær leiðir: Fyrst að borga honum í einu alla þá upphæð, sem hann hefir tapað á þessum skakka útreikningi, sem er á fimta þús. kr., svo og hin tjeðu eftirlaun hjeðan í frá, eða þá að bæta við hin rjettu eftirlaun hans, árgjaldi er samsvari vöxtum af þessum höfuðstól, en það mundi verða um 200 kr. á ári. Þessa síðari leið vill nefndin taka, og leggur því og til, að eftirlaun hans verði þá framvegis reiknuð 1912 kr. 54 a.

Nú sje jeg að frá einum hv, deildarmannanna hefir komið fram brtt. um, að viðhafa hina aðferðina, þ. e. að borga allt út í einu, og er óneitanlega margt, sem með því mælir; en fyrir hönd fjárlaganefndarinnar hefi jeg ekkert annað að segja, en að hver einstakur nefndarmaður hefir þar áskilið sjer óbundið atkvæði.

Á þgskj. 434 ber fjárlaganefndin fram þá viðaukatillögu að við 5. gr. bætist nýr liður til að reisa vitavarðarbústað á Elliðaey, 3000 krónur. Orsökin til þessarar tillögu er sú, að fyrir nokkrum árum keyptu nokkrir menn Elliðaey til að reka þar refarækt. Eigendurnir hafa nú sagt vitaverði upp ábúðinni, og þetta hefir leitt til þess, að hann hefir orðið að segja upp starfi sínu. Hjer var því um tvent að gera. Annaðhvort að taka eignarnámi land undir vitavarðarbústað, sem yrði dýrt, og þá jafnframt láta hann fá svo há laun, að hann geti lifað á þeim einum, eða semja við eigendur eyjarinnar um landið og vitavörsluna. Og það hefir orðið ofan á. Vitaumsjónarmaðurinn Krabbe, er hefir mest við málið fengist, hefir leitað samninga við eigendur eyjarinnar, og hefir það að samningum orðið, að landssjóður byggi hús í Elliðaey og verji til húsbyggingarinnar 3000 kr., en húsið verði eign landssjóðs og kosti alls 3500 kr. Þær 500 kr., er vanta til byggingarkostnaðarins, leggur eigandi eyjarinnar til. Húsið verður, eins og jeg áður tók fram, eign landssjóðs, er kostar viðhald þess og greiðir af því vátryggingargjald. Aftur taka eigendur að sjer, að hafa mann, er geti tekið að sjer vitastarfið, fyrir ekki hærra gjald en það, sem nú er greitt. Krabbe mælir með því, að þetta fje verði veitt, og jeg tel það heppilegra en að taka landið eignarnámi. Jeg skal geta þess, að upphæðin hefir verið greidd upp á væntanlegt samþykki, og að svo hefir samist að landssjóður hafi forkaupsrjett á Elliðaey, ef eigendur selja hana.

Um aðra brtt. á þgskj. 434 get jeg verið fáorður. Hún er að eins til að orða betur þessa málsgrein, og láta það vera skýrt, að kaupa beri bæði hús og lóð fyrir þetta verð. Nefndin telur að liðurinn verði betur orðaður, svo sem hjer er, en ef brtt. háttv. þm. Barð. (H. K.) verður samþykt, en að efni til er hún eins. Jeg vænti því að hinn háttv. þingmaður (H. K.) taki aftur sína tillögu.

Um brtt, þær, er háttv. þingmenn hafa flutt, finn jeg ekki ástæðu til að tala fyr en þeir hafa fært rök sín fyrir þeim.