13.09.1915
Efri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

109. mál, skipun dýralækna

Sigurður Stefánsson:

Jeg get skrifað undir margt í ræðu háttv. 5. kgk. þm. (G. B.), t. d. það, að mjög æskilegt væri, ef læknar öfluðu sjer þekkingar í dýralækningum. En jeg er honum ósamdóma um þá breytingu, sem nefndin vill gjöra á frv. Hún viðurkennir í nefndaráliti sínu, að þessir tveir dýralæknar, sem á landinu eru, hafi gjört ómetanlegt gagn og segir jafnframt, að þörf sje á miklu fleirum, en vill þó ekki bæta við einum tveimur mönnum. Ekki verður því neitað, að röksemdaleiðslan er nokkuð undarleg.

Háttv. framsm. (G. B.) hjelt því fram, að meiri nauðsyn væri á því, að fá dýralækni á Austfirði en Vestfirði. Ekki fæ jeg komið auga á, hvernig sýnt verði fram á það. Víst er um það, að Vestfirðingafjórðungur er miklu meiri yfirferðar en Austfirðingafjórðungur. (Steingr. Jónsson: Er völ á nokkrum dýralækni á Vestfirði?) Já, það hygg jeg muni vera, að minnsta kosti innan skamms. Landssjóður hefir kostað mann utan um nokkur ár, til þess að nema dýralæknisfræði, og mun hann ekki eiga eftir nema 1½ ár, þangað til því námi er lokið. Og ekki verður því neitað, að undarleg er sú ráðsmennska, að kosta ærnu fje til að láta mann læra þessa fræðigrein, en ætlast svo ekki til, að hann fái neitt að starfa, þó að allir viðurkenni, að, brýn nauðsyn sje á slíkum manni.

Hvað viðvíkur námsskeiði héraðslæknanna, sem háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) talaði um, þá er jeg honum samdóma um það, að það ætti að geta komið að miklu gagni, en enn þá hafa engar ráðstafanir verið gjörðar í þessa átt, og virðist þessu að eins vera slegið fram, án þess að full alvara fylgi. Það hefir ekki verið veitt neitt fje í fjárlögunum í þessu skyni, og þau eru nú farin úr deildinni, svo óhugsandi er, að þessi uppástunga geti komið að nokkru gagni fyrst um sinn.

Háttv. framsm. (G. B.) játaði, að hjer væri um mikla þjóðarþörf að ræða, en vildi þó ekki hafa 4 dýralækna á landinu, heldur að eins 3. Þetta er næsta ósanngjarnt, þegar þess er einnig gætt, að þessi dýralæknir á Vestfjörðum mundi ekki kosta landssjóð nema 1200 kr. á ári, því 300 kr., sem veittar eru til Hólmgeirs Jenssonar í fjárlögunum, mundu þá að líkindum falla niður.

Jeg verð þess vegna fyrir hönd Vestfjarða að mótmæla þessari brtt. nefndarinnar, þar sem hún er svo alsendis ósanngjörn, og vona að háttv, deild sýni Vestfjörðum sömu velvild og Austfjörðum.