19.08.1915
Efri deild: 37. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Björn Þorláksson :

Af því að jeg sem fjárlaganefndarmaður er óbundinn með atkvæði mitt um eitt mál, og greiði þar atkvæði á móti nefndinni, þá vil jeg gera stutta grein fyrir því.

Það er um eftirlaun Skúla Thoroddsens, og brtt. nefndarinnar um að hækka þau; eins og kunnugt er, þá er orsökin til þess, að háttv. Nd. setti inn þetta ákvæði sú, að eftirlaun hans hafa verið of lágt reiknuð, en það varð að samningamáli á milli Skúla Thoroddsens og fjárlaganefndar Nd., að því er framsögumaður hennar hefir skýrt mjer frá, að eftirlaunin til hans, skyldu vera svo talin, sem nú er í frumv., og Skúli Thoroddsen lofaði þá og að gjöra ekki frekari kröfu. Mjer finst því að jeg geti ekki farið lengra, og greiði því atkvæði á móti tillögu nefndarinnar hjer, sem og tillögu háttv. 6. kgk. þm. (J. Þ.), því þá stendur við það, er fjárlaganefnd Nd. og hann hafa orðið ásátt um.

Jeg vil taka það fram, að það, sem vakti fyrir fjárlaganefnd neðri deildar var, að að þetta væri sæmileg lausn á málinu. Og mjer finst og verða að geta þess, að þessi sami maður fjekk einu sinni uppbót úr landssjóði fyrir það, hvernig hann var losaður við embættið.

Í annan stað ber og að gæta að því, að hann (þ. e. Sk. Th.) hefir nú haft eftirlaun í 20 ár, án þess að hann hafi kvartað eða komið fram með kröfu um, að honum bæri hærri eftirlaun, svo þetta er og honum sjálfum að kenna.

Jeg verð því að vera á móti báðum tillögunum; jeg tel það skyldu mína að fara sparlega með fje landsins, eigi hvað síst í þeirri dýrtíð, sem nú er hjer í landi sem og í landssjóði.