09.08.1915
Efri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

44. mál, fuglafriðun

Jósef Björnsson:

Þótt jeg sje ekki hrifinn af frv. þessu, finst mér þó, að nokkuð sé hranalegt, að taka því þannig, að drepa það nú þegar, eins og mjer fanst að háttv. þm. Ísaf. (S. St.) helst vilja. Vil jeg því leggja til, að málinu verði, að þessari umr. lokinni, vísað til sömu nefndar og kosin var í næsta mál á undan. En það tek jeg undir með hv. þm. Ísaf (S. St.), að ekki sje mikil bjargráð, þó leyft sje að skjóta rjúpur til nýárs, og tæplega að það geti orðið til mikillar bjargar. En ef mönnum finst, að með því geti fengist verulegur kjötauki, þá finst mjer sennilegt, að þeir hinir sömu vilji vísa málinu til nefndar. Þá vildi jeg og, ef málið gengur fram, að ákveðið væri fast verð á rjúpunni, og þá ekki hærra en svo, að kaupendur megi við una, og fátækum mönnum væri ekki um megn að kaupa hana. Hátt verð á þeim gæti og orðið tálbeita til mjög mikils dráps, og teldi jeg það illa farið, að svo yrði. Með þessu væri og forðast, að gengið væri of nærri anda fyrri laga um þetta. Sárt er mjer ekki um. frv. þetta, en virðist það kurteisi við háttv. Nd., að lofa því að ganga til 2. umr. og vísa því til nefndar.