09.08.1915
Efri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

44. mál, fuglafriðun

Karl Finnbogason:

Jeg er samdóma háttv, síðasta ræðumanni, 2. þm. Skagf. (J. B.) um það, að ekki sje rjett að drepa frv. umsvifalauat. En jeg er á þeirri skoðun, að rjett sje að ófriða rjúpuna. Með því að friða rjúpuna 7. hvert ár, næst alls ekki það, sem til er ætlast, því það er víst, að minna fellur af rjúpunni fyrir skotum en harðindum. Og harðindin geta alveg eins drepið friðaðar rjúpur eins og ófriðaðar. Ef til vill fjellu þær einmitt friðunarárið, þótt þeim fjölgaði mjög hin árin. Það kemur líka fram ójöfnuður í því, að friða rjúpuna fyrir nýir, en ekki eftir, eins og verður nú. Það vita allir, sem því eru kunnugir, að rjúpurnar breyta mjög um stöðvar, eru annarstaðar á haustin, heldur en eftir nýár. Kemur það því ójafnt niður, að þeir, sem eru á þeim stöðvum, sem rjúpurnar dvelja á fyrir nýár nú, sje fyrirmunað að nota sér þær, en hinum leyft það, sem búa á þeim stöðum sem rjúpan yrði á eftir nýár. Auk þess er miklu minni hætta á, að þær verði eyðilagðar með skotum fyrir nýár, meðan jörð er alstaðar nóg, en eftir þann tíma, þegar alvarleg jarðbönn eru, nema á einstöku stöðum. Álít jeg því skynsamlegast, að ófriða rjúpuna þessa mánuði fyrir nýár, ákveða á henni hámark verðs og banna allan útflutning. Gæti þetta orðið til allmikillar hjálpar fyrir fátæklinga, bæði í sveit og við sjó.