05.08.1915
Efri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

83. mál, Bjarghús í Þverárhreppi

Flutnm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg flyt frv. þetta eftir beiðni ábúandans í Bjarghúsum, Hann hefir búið í mörg ár á jörðinni, sem er kot, liðug 8 hndr. að dýrleika, og gjört miklar jarðabætur. Finst mjer, að það ættu að vera sterk meðmæli með beiðni hans. Árið 1912 lagði hann beiðni um kaup á ábýlisjörð sinni fram fyrir sýslunefndarfund Vestur-Húnavatnssýslu, og hafði sýslunefndin ekkert við það að athuga, að jörðin væri seld. Sýslumaður útnefndi síðan matsmenn til þess að virða jörðina. En lengur hefir svo þetta mál ekki átt samleið með lögunum um sölu kirkjujarða frá 16. nóv. 1907. Virðingarmennirnir mátu aldrei kotið, sem þó var bein skylda þeirra, og engin skýrsla hefir komið opinberlega fram um þetta frá umráðanda jarðarinnar. Ábúandinn getur þess til, að þáverandi prestur á Breiðabólstað hafi verið á móti sölunni, enda hafi hann verið á móti allri sölu á þjóðgörðum og kirkjujörðum. Sje þessi tilgáta rjett, hefir umráðamaður verið of fljótur á sjer, því að rjettara hefði verið, að jörðin hefði verið virt og álit umráðamanns um söluna fylgt síðan virðingargjörðinni til stjórnarráðsins, eins og lögin ákveða.

Jeg hefi nú með fáum orðum bent á það, að með mál þetta hefir, að miklu leyti, verið farið gagnstætt gildandi lögum um sölu kirkjujarða, en ekki samkvæmt þeim.

Ábúandi hefir nú snúið sjer til Alþingis, og hefir beiðni hans verið lögð fram á lestrarsalinn, ásamt fleiri skjölum snertandi þetta mál. Jeg vona, að háttv. deild leyfi þessu litla frv. framgang, og vil leyfa mjer að stinga upp á, að skipuð sje í það þriggja manna nefnd að lokinni þessari umræðu.