05.08.1915
Efri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

83. mál, Bjarghús í Þverárhreppi

Steingrímur Jónsson:

Mjer skilst á ræðu háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.), að það sje röng leið sem ábúandinn í Bjarghúsum fer. Málinu hefir verið vísað til sýslunefndar og sýslumaður útnefnir matsmenn, allt samkvæmt lögum. En það sjest hvergi, að ábúandi hafi gengið eftir því, að lögunum væri, hlýtt og jörðin metin. Umráðamaður er svo skyldur til að senda skýrslu til stjórnarráðsins. Meðan þetta er ekki gjört, hefir frv. ekkert erindi til þingsins. Jeg vil ekki láta þingið taka fram fyrir hendur stjórnarráðsins. Það er algjörlega starf í blindni, að taka málið hjer fyrir, því að það á eingöngu erindi til stjórnarráðsins. Eða er það rjett, að þingið semji fyrst lög um sölu kirkjujarða og svo sje farið með hverja einstaka jörð til Alþingis? Það er að taka fram fyrir hendur stjórnarráðsins. Jeg get ekki greitt þessu frv. atkvæði, því að jeg álít að röng leið sje farin með því, að koma með það hingað.