27.08.1915
Efri deild: 44. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

122. mál, upptaka legkaups

Flutningsmaður (Björn Þorláksson):

Þetta frumvarp er þannig til komið, að jeg komst í nefnd, sem skipuð var til að athuga frumvarp um afhendingu á landi til kirkjugarðsins í Reykjavík. Í því frv. var farið fram á, að tekið væri upp legkaup fyrir þá, sem grafnir eru í Reykjavík. Þetta varð til þess, að nefndin hefir klofnað. Jeg leit svo á, að ekki væri rjett að leggja slíkt gjald á einn söfnuð landsins, en sleppa öðrum. En jeg get ekki betur sjeð en að það sje gjört, ef það frv. nær fram að ganga. Fyrir því kem jeg fram með þetta frumvarp. Að vísu er það skoðun mín, að legkaup þurfi að taka upp í Reykjavík, til þess að bæta upp þann kostnað, sem kirkjan þar hefir orðið að bera á síðustu árum, en jeg vil að það nái ekki til Reykjavíkur einnar, heldur alls landsins. Jeg álít, að Alþingi hafi missýnst, þegar það nam burt legkaup árið 1909. Að því er kemur til Reykjavíkur, mun kirkjan þar hafa tapað við það þessi árin um 4000 kr. Það er öllum kunnugt, hvað kirkjan í Reykjavík stendur illa fjárhagslega og hvað landssjóður hefir oft orðið að hlaupa undir bagga með henni. Árið 1909 rýrnuðu tekjur kirkna um alt land. Áætlun skattamálanefndar um að 95 aura gjald á hvern safnaðarmeðlim mundi jafngilda þeim tekjum, sem kirkjurnar hefðu haft áður, hefir reynst röng, er til framkvæmdanna kom. Jeg held, að kirkjurnar hafi tapað miklu fje við þetta, einkum þær, sem áður höfðu miklar tekjur af kirkjugjaldi á húsum. Tekjur kirknanna voru ekki svo miklar, að þær mættu við þessari tekjurýrnun. Fjárhaldsmenn kirkna hafa fundið þetta síðan 1909, og jeg hefi heyrt marga þeirra segja, að það hafi verið misráðið að afnema legkaupið. menn hafa tekið það fram, að þetta var gjald, sem menn fundu ekki til, og að það var að eins lítill hluti af sjálfsögðum útfararkostnaði. Vil jeg leyfa mjer að benda á, að biskup álítur, að það hafi verið illa ráðið, að afnema legkaupið, og jeg vona að háttv. deild sjái, að það er ekki þýðingarlítið, hvernig sá maður lítur á málið, sem kunnugastur er fjárhag kirknanna. Jeg mundi þó ekki hafa komið með þetta frumvarp, ef frv., sem jeg gat um áðan, hefði ekki komið fram. En eftir því ættu Reykvíkingar einir að greiða legkaup. En til þess að bæta úr því misrjetti, sem slíkt hefði haft í för með sjer, hefi jeg komið fram með þetta frv.

Kirkjugarðsnefndin leit svo á, að ekki yrði hjá því komist, að taka upp legkaup í Reykjavik. Einmitt til þess að bæta úr þeim misrjetti, sem þá yrði milli Reykjavíkur og út um land, er frv. þetta fram komið. Tilætlun mín er þá að 3. grein kirkjugarðsfrv. verði feld, eins og hún nú er, og í þess stað komi þetta frv. Jeg á ekki við, að brtt. meiri hluta nefndarinnar skuli feldar með öllu.

Jeg gjöri ráð fyrir, að sumum þyki í nokkuð mikið ráðist, að leggja skatt á alla söfnuði landsins, en það er í raun og veru ekki svo ægilegt. Jeg vil reyna að sýna með tölum, hve miklu þetta munar. Jeg mun sýna útgjöldin af þessu um land alt og sjer fyrir Reykjavíkursöfnuð, og hvað kemur á hvert nef á landinu. Til þess hefi jeg orðið að fara í Landhagsskýrslurnar, og hefi sjeð í þeim, að árið 1909 dóu á öllu landinu 1329 menn; þar af innan tveggja ára 408, eldri 921; ekki eru þessir allir grafnir, því að svo er um fæsta, er í sjó drukna. Ef legkaup er nú reiknað út, eins og fram á er farið í frv., fyrir þessa menn, þá verður það alls 4500 krónur.

Nú má ætla þar af 1/6 í Rvík, og verður það þá 750 kr., en skatturinn fyrir alt landið utan Reykjavíkur 3800 kr., sem verða þá tekjur fyrir hinar kirkjurnar. Ef þessu er nú jafnað niður á alla landsmenn, verður það 5 aura skattur á mann. Jeg skal einnig taka annað ár, 1910; þá dóu 1367, þar af innan tveggja ára 371, eldri 996. Eftir sama mælikvarða verður það 4726 kr.; þar af 788 kr. í Rvík og 3938 kr. utan Rvíkur. Það verða á sama hátt 51/2 eyrir á hvert nef. Jeg get skoðað þetta enn á einn veg, og ber þó að sama brunni. Dánartalan á landinu er alt af að færast niður, og eru orsakirnar til þess öllum kunnar. Nú er hún um 150/00; af þeim 15, er deyja, eru 4 innan tveggja 2 ára og hinir 11 eldri, og verður þá öll upphæð legkaupanna lík, nefnilega 52 kr. á eitt þúsund, eða 5,2 aurar á mann. Með öðrum orðum, skatturinn, sem þeir lifandi yrðu árlega að borga vegna hinna dauðu, er 5–6 aurar á nef, ef frv. mitt nær fram að ganga.

Jeg vil geta þess, að jeg hefi stungið upp á 4 krónum fyrir heilt legkaup, en 2 krónur fyrir hálft. Mönnum getur litist ýmislega á það; sumum mun þykja það of lágt, og er þeim þá innan handar að breyta því við seinni umr. málsins. Tekjur Rvíkurkirkju mundu nema, ef legkaupið er 4 kr., um 800 kr. Á 10 árum verður það 8000 kr., og er það alt að því jafn mikið og landssjóður verður nú að leggja fram til nýs kirkjugarðs handa Rvík. Tekjur annara kirkna yrðu samtals 4000 kr. á ári, eða sem svarar verði einnar lítillar sveitakirkju.

Jeg vil taka það fram, í sambandi við þetta mál, að það sem hefir valdið því, að frv. þetta er fram komið, er einmitt hið dýra land undir grafreit hjer. Það er sjerstaklega hjer í Rvík, en er þó sumstaðar annarstaðar líkt. T. d. er sagt að í Hafnarfirði sje dýrt land, og að með tímanum muni verða örðugt að útvega land undir þann mikla fjölda, er þar deyr, því að þar er sjúkrahús, og deyja þar því margir, sem ekki eru í söfnuðinum. Það getur orðið honum til mikillar byrði. Enn fremur má minna á kirkjugarðana, því að ástand það, sem þeir eru nú i, er tæplega viðunandi. Ef kirkjan fær meiri tekjur, má lagfæra það.

Jeg skal þá ekki fara lengra út í þetta mál. Jeg hefi skýrt það nægilega frá mínu sjónarmiði. Þetta er ekki kappsmál fyrir sjálfan mig. En þó þetta mál falli nú, hygg jeg þess verði ekki langt að bíða, að áskoranir komi frá þjóðinni um að taka legkaup aftur upp.

Jeg álít, að ef lög þessi kæmust á, mundu þau verða vinsæl. Jeg veit ekki betur en að legkaupið væri borgað með fúsum og góðum vilja, meðan það var í lögum.

Mjer er ómögulegt að gefa því frv. atkv., þar sem Alþ. leggur gjald á 1/6 landsmanna, en sleppir hinum við það. Það finst mjer óþolandi misrjetti. Jeg skal ekki fara fleiri orðum um þetta frv., nema ef vera skyldi við 2. umr. Jeg vildi að það fengi að ganga svo langt, enda álít jeg að þessu frv. þurfi að ráða til lykta á undan kirkjugarðsfrv.