27.08.1915
Efri deild: 44. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

122. mál, upptaka legkaups

Jósef Björnsson:

Jeg skal taka undir það með háttv. flutnm. (B. Þ.), að það er óviðurkvæmilegt misrjetti, að leggja gjald á suma landsmenn, en ekki á aðra. Við ræðu háttv. flutnm. (B. Þ.), vil jeg að öðru leyti leyfa mjer að gjöra nokkrar aths., og gefa bendingar um, hvernig mjer finst ástæða til að breyta þessu frv., ef það á fram að ganga.

Fyrst vil jeg þá taka fram, út af því, sem hann sagði, að með lögum um sóknargjöld hefðu tekjur kirknanna rýrnað um land alt. Þetta er ekki rjett, að því er allar kirkjur snertir. Lögákveðnu gjöldin urðu sumstaðar hærri en áður, og leiddi það til þess, að frá einstaka söfnuði, þar sem voru bændakirkjur, komu kröfur um að færa 75 aura gjaldið niður. Háttv. þingdm. geta sjeð, að þetta hefir átt sjer stað, með því að líta í Stjórnartíðindin. Í þeim sjest einmitt, að stjórnarráðið hefir sumstaðar sett gjaldið lægra en lögskipað var. Þá er það og ekki fyllilega rjett, sem mjer virtist háttv. flutnm. (B. Þ.) segja, að áætlun skattamálanefndarinnar hafi verið röng. Áætlun skattamálanefndarinnar um, að nefskatturinn myndi vega upp tekjur kirknanna áður, var yfirleitt rjett, ef allar kirkjur eru teknar undir eitt; enda þótt tekjur þeirra hafi sumstaðar reynst rýrari en áður, en það er komið af örum ástæðum. Röskun á tekjum einstakra kirkna á sjer og sífelt stað af tilflutningi fólks, og fækkun þess í sumum söfnuðum, en fjölgun í öðrum. Margir söfnuðir hafa og síðan tekið kirkjurnar í sínar hendur, enda er það mjög æskilegt, en um leið hafa þarfir kirknanna vaxið. Sumpart hefir það komið af því, að nýir gjaldaliðir hafa myndast, söngur hefir verið endurbættur og borgaður af kirkjufje; kirkjurnar reistar af nýju, þær verið hitaðar upp o. fl. Þetta hefir leitt til þess, að söfnuðir hafa á mörgum stöðum farið fram á að mega hækka gjaldið úr því, sem lögákveðið var.

Jeg get mjög vel tekið undir með háttv. flutnm. (B. Þ.), að söfnuðurnir munu fúsir á að taka upp nýja gjaldliði, jafn sjálfsagða, sem legkaupið er.

Að mínu áliti er þó einn annmarki á. þessu. Jeg skýt því til háttv. flutnm: (B. Þ.), því við erum víst báðir sammála um, að æskilegast væri, að allir söfnuðir hefðu kirkjurnar í sínum höndum. Ef þetta, um legkaupið, á að gilda jafnt um safnaðarkirkjur og bændakirkjur, mundi frv. tálma því, að þetta yrði, því að sumar bændakirkjur eru nú lítt fáanlegar, og myndu því síður verða það, ef tekjur þeirra ykjust. Jeg held því að best væri, að þar sem bændakirkjur eru, verði það, sem inn kemur fyrir legkaup, lagt í sérstakan sjóð, til viðhalds kirkjugarði, sem söfnuðurinn hefir sjálfur í sínum höndum.

Eitt atriði vil jeg nefna, sem mælir með þessari breytingu, eins og nú standa sakir, Þjóðkirkjusöfnuðirnir hafa kirkjugarðana nú á sínum örmum, verða að borga þá og halda þeim við; þeir borga því legkaup, þótt óbeinlínis sje. En utanþjóðkirkjusöfnuðir borga ekki neitt slíkt gjald. Slíkt misrjetti mundi því jafnast.

Aðalgallinn er, að ekki er gjört neitt til þess að stuðla til þess, að söfnuðirnir nái kirkjunum í sinar hendur. Ef hv.flutnm. (B. Þ.) tekur bendingu mína til greina, mun jeg verða frv. meðmæltur.