27.08.1915
Efri deild: 44. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

122. mál, upptaka legkaups

Sigurður Stefánsson:

Jeg tel frv. þetta að mörgu leyti gott. Hjer er um það að ræða, hvort hækka eigi kirkjugjöldin, eða taka upp legkaup. Síðan kirkjugjöldin voru áætluð, hefir margt breytst, svo þau eru nú víða orðin ónóg, og þarf ekki að benda á annað en það, hvað miklu meiri kröfur menn gjöra nú en áður til þess, að kirkjubyggingarnar sjeu vandaðar. Það er að vísu gjörlegt, að hækka kirkjugöldin, en sjaldan mun það þó ganga hljóðalaust af, því að allir nefskattar eru óvinsælir. Hins vegar hefir legkaup aldrei verið óvinsælt, og ef það væri tekið upp aftur, mundi sjaldnar þurfa að grípa til þess að hækka kirkjugjöldin.

Það var að vísu rjett, sem háttv. 2. þm. Skagf. (J. B.) sagði um bændakirkjurnar, en þó hygg jeg þess eins mörg dæmi, að söfnuðurnir vilji ekki taka við kirkjunum, eins og að bændur vilji ekki láta þær af hendi. Enda er nú kominn sá glundroði í alla kirkjulöggjöf vora, að það er alls ekki hættulaust fyrir einstaka menn að eiga kirkjur, því að þær geta staðið tekjulausar, þar sem söfnuðurnir, hve nær svo sem þeim ræður við að horfa, geta gengið úr þjóðkirkjunni og stofnað fríkirkju, og þannig að lögum losnað við öll gjöld til þjóðkirkjunnar, hve nær sem vera vill. Jeg held ekki að bændur mundu reynast ófúsari á, að fá söfnuðunum kirkjurnar í hendur, þó að legkaup yrði tekið upp, það yrði aldrei sá tekjuauki, að þeir yrðu ekki eftir sem áður fegnir, að sleppa við áhættuna.

Jeg skal ekki fara langt út í ræðu hv. 6. kgk. þm. (G. B.), en jeg efast um, að hans fögru hugsjónum verði auðveldlega komið í framkvæmd. Almenningur hefir aldrei litið svo á, að leiðið væri fjeþúfa kirkjunnar, þótt legkaup væri tekið, en hitt liggur í augum uppi, að það getur orðið kirkjueigandanum talsvert tilfinnanlegt, að eiga að leggja land til kirkjugarðs endurgjaldslaust, sjerstaklega þegar kirkjugjöldin eru þar að auki ónóg. Legkaupið mundi því bæta nokkuð úr skák.

Annars vil jeg hjer gjöra þá athugasemd, að mjer virðist öll okkar kirkjumál komin í slíkar ógöngur, að jeg sje enga leið út úr þeim, nema algjörðan skilnað ríkis og kirkju. Með þeim orðum á jeg ekki eingöngu við fjárhagsástæður kirkjunnar, heldur miklu fremur við ýmsar þær trúarskoðanir, sem nú eru látnar sigla undir flaggi þjóðkirkjunnar, þótt andstæðar sjeu sönnum evangeliskum kristindómi.