19.08.1915
Efri deild: 37. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Hákon Kristófersson :

Háttv. framsögum. virðist hafa tekið það illa upp af mjer, að jeg var því mótfallinn, að hækka meðlagið sjúklinganna á Vífilsstöðum. Jeg álasaði nefndinni ekkert fyrir hennar niðurstöðu, en jeg bjóst ekki við svona fráleitum rökum frá háttv. framsögum. fyrir niðurstöðu nefndarinnar. Ef svo er, að gjaldið hafi verið of lágt áður, þá á fólk í sveitum að minsta kosti fullerfitt með að gjalda það núna, þrátt fyrir það, sem framsögumaður sagði, að vel áraði fyrir sveitabóndann. Annars er svo að sjá, sem sumum renni til hjarta þessi tekjuhækkun bænda, en það er að mínu áliti næsta ástæðulítið enn sem komið er. Bændur hafa að vísu selt ull sína þolanlega, en kjöt þeirra er alls ekki komið á markaðinn, og er því helsti snemt, að reikna þeim tekjur fyrir það enn þá, og verð jeg að lýsa furðu minni á slíkri öfundssýki, sem virðist vera mjög almenn hjer í þinginu gagnvart bændum og framleiðendum. Og jafnframt tel jeg það mjög illa farið, ef hækkað verður gjald sjúklinganna á Vífilsstöðum.