30.08.1915
Efri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

122. mál, upptaka legkaups

Björn Þorláksson:

Háttv. þm. Seyðf. (K. F.) hefir lýst sinni skoðun á þessu máli, og telur hann þrjá agnúa helsta á frv.

Í fyrsta lagt þótti honum ekki eðlilegt, að legkaupið væri alstaðar jafnhátt á landinu, þar sem landið væri ekki alstaðar jafndýri. Þetta má satt vera, en jeg hygg, að erfitt verði að meta legkaupið eftir þessu, og get jeg ekki lagt mikið upp úr þessari mótbáru.

Annar agnúinn, sem háttv. þm. Seyðf. (K. F.) fann á frv., var sá, að lægra gjaldið skyldi miðað við tveggja ára börn. Honum fanst eðlilegra að miða við 10 ára börn, og þótti honum ákvæði frv. næsta ósanngjarnt. Við því má segja það, að lítt mögulegt er að finna mark, er ávalt sje sanngjarnt. En fyrir mjer vakti það eitt, að koma þessu í sama horf og áður hafði verið. Eins og menn vita, þá var legkaup afnumið fyrir 6 árum, og hafði þá sá siður haldist frá alda öðli, að hálft legkaup var goldið fyrir börn, tveggja ára eða yngri, en heilt fyrir þá, er eldri voru.

Þriðja atriðið í frv., sem háttv. þingm. (K. F.) var mótfallinn, var það, að gjaldið skyldi greitt til kirkju þeirrar sóknar, þar sem maðurinn dæi. Jeg hefi átt tal um þetta við biskup landsins, og taldi hann það stóran kost á frumvarpinu, að gjaldið skyldi greitt þar, sem sá andaðist, er grafinn væri. Áður var það svo, að legkaup var goldið þar, sem maðurinn var heimilisfastur, en ákvæði frv. hygg jeg muni vera til bóta. Hætta getur engin af því stafað, sökum þess, að það eru undantekningar einar, að menn sjeu grafnir annarsstaðar en þar, sem þeir andast. Jeg get því ekki fallist á, að þessar mótbárur hafi við rök að styðjast. Háttv. þingm. Seyðf. (K. F.) hefir ekki heldur komið fram með neinar breytingartillögur, svo ekki er hægt að taka til greina athugasemdir hans. Hann vill helst vísa málinu frá að sinni, og hygg jeg að aðalástæða hans muni vera sú, að hann búist við, að lögin verði óvinsæl. Jeg hefi áður látið í ljós það álit mitt, að svo muni alls ekki vera, og fært . rök fyrir því, að líkindi sjeu fyrir, að þau yrðu fremur vinsæl af alþýðu manna. Annars er óþarfi að ræða meira um þetta, og mun jeg leggja málið undir atkvæði háttv. deildar, en jeg lýsi yfir því, að jeg hlýt að greiða atkvæði á móti dagskránni.