30.08.1915
Efri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

122. mál, upptaka legkaups

Kristinn Daníelsson :

Jeg býst við að jeg greiði rökstuddu dagskránni, sem fram er komin, atkvæði mitt, og er jeg þó ekki sammála háttv. höfundi hennar, þm. Seyðf. (K. F.), að öllu leyti. Jeg er honum meðal annars sammála um það atriði, að rjettast sje, að legkaupið sje tekið þar, sem maðurinn er grafinn.

Ekki get jeg lagt mikið upp úr því, sem háttv. þm. Ísaf. (S. St.) sagði um bændurna, sem eru kirkjueigendur. Þá kostar, hygg jeg, víðast ekki mikið landið undir kirkjugarðinn, og legkaupið væri þeim fremur lítil uppbót. Enda er þess mest þörfin, og til þess ætlast, að nota það til viðhalds kirkjugörðunum, en ekki sem gjald fyrir land. Ekki hefi jeg orðið mikið var við, að bændum væri mjög ant um að losna við kirkjur sínar, og hygg jeg, að ekki muni vera eins mikil brögð að því og háttv. þm. Ísaf. (S. St.) hjelt fram; jeg þekki að minsta kosti dæmi til hins gagnstæða.

Þetta viðhald kirkjugarðanna er að mínu áliti mjög svo merkilegt mál og ekki svo lítið menningaratriði fyrir okkur. Það hefir mjer verið sagt, að útlendingar, sem sjeð hafa kirkjugarðana okkar, hafi talið okkur það meðal annars til hnjóðs, hvernig þeir hafa litið út, og þótt það bera vott um ræktarskort þjóðarinnar. En það, sem mjer gengur sjerstaklega til, með því að greiða dagskránni atkvæði mitt, er það, að við höfum lög, er tryggja söfnuðunum, að gjald má leggja á til viðhalds kirkjugarðanna. Og legkaupið mundi hvort sem er víða ekki nægja, þó það væri notað, svo að það yrði samt að grípa til hinna ákvæðanna.

Jeg fyrir mitt leyti hefði heldur kosið, að legkaupið. hefði aldrei verið numið úr gildi, en fyrst það var nú gjört, þá finst mjer ekki rjett að taka það upp aftur, án þess, að söfnuðirnir fái að hafa nein afskifti af því.

Þegar sóknargjöldin komust á fyrir nokkrum árum, vöktu þau megna óánægju mjög víða, og sú óánægja er ekki enn útkulnuð. Jeg vildi nú ógjarnan auka á þá óánægju með lögum, sem ekki skifta meira máli. Jeg er ekki í vafa um, að það yrði óvinsælt af mörgum, þó jeg hins vegar þekki hitt líka, að margir gjalda legkaupið með glöðu geði. Jeg verð því, þegar á alt er lítið, að telja það rjettast, að söfnuðirnir fái að vera í ráðum með, ef þessu á að breyta aftur, og mun því greiða dagskránni atkvæði mitt.