07.08.1915
Efri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

39. mál, fátækralög

Framsm. (Hákon Kristófersson) :

Svo sem nál. ber með sjer, vill nefndin gjöra allmiklar breytingar á frv. því, sem jeg bar upphaflega fram hjer í deildinni. Jeg get verið fáorður um brtt. nefndarinnar, því að nál. gjörir rækilega grein fyrir þeim, og vænti jeg, að háttv. deildarmenn hafi kynt sjer það. Jeg fyrir mitt leyti hefði helst óskað, að frv. hefði mátt haldast óbreytt, en þó verð jeg að játa, að jeg tel stórmikla bót að frv. með þeim breytingum, sem nefndin leggur til að gjörðar verði á því. Jeg hefi alt af verið þeirrar skoðunar, að það sje óheppilegt, hvað langan tíma þarf til þess, að menn vinni sjer sveitfesti, og hefir þessi agnúi á núgildandi löggjöf lang oftast orðið fæðingarhreppnum tilfinnanlegur. Það er mín hugmynd, að eðlilegast sje, að sjerhver sje sveitfastur í þeim hreppi, sem hann hefir lengst unnið í. Annar háttv. meðnefndarmanna minna (Stgr. J.) gat ekki fallist á þessa skoðun, og hefi jeg því gjört það til samkomulags, að fallast á brtt. þær, er fyrir liggja, með því að jeg álít frv. til stórra bóta, þó að því sje þannig breytt. Eins og nú stendur á, geta menn farið sveit úr sveit, áratugum saman, og komið svo loks á fæðingarhrepp sinn, ef til vill með stóra fjölskyldu, þegar þeir eru komnir af fótum fram. Þetta er óhæfilegt, og þarf að kippa því í lag sem fyrst. Jeg get ekki heldur sjeð af umr. þeim, sem fóru fram um þetta mál á þingi 1905, að meiri hluti þingmanna hafi þá verið hlyntur 10 ára sveitfestistíma. Flestir hjeldu því þá fram, að best væri að sjá, hvort menn gjörðu sig ekki ánægða með þetta tímatakmark, og sögðu, að alt af væri hægt að breyta því, án þess að lögunum væri breytt að öðru leyti. Jeg vona líka, að háttv. deild sje mjer sammála um, að nú sjeu aðrir tímar en 1905; möguleikarnir til ýmislegrar atvinnu hjer og þar eru nú meiri en þá, og fólkið því orðið miklu

óstöðugra. Reynslan hefir sýnt, að þetta kemur harðast niður á fæðingarhreppnum. Tilgangur frv. er að bæta úr þessu, og vona jeg því, að háttv. deild taki því vel, ásamt þeim breytingum, sem nefndin hefir gjört á því: Jeg hefði að vísu helst óskað, að þær brtt. hefðu ekki komið fram, en samt sem áður álít jeg frv. þannig breytt til nokkurra bóta. Það vil jeg þó taka fram, að jeg tel frv. ekki hafa sætt þeirri meðferð hjá nefndinni, er æskilegust hefði verið. Það, sem vakti fyrir mjer með samningu frv., var sjerstaklega það, að því yrði komið á, að þar ætti hver einn sveit, er hann hefði lengst unnið. Að það væri samfleytt, virtist mjer óheppilegt; hitt var mjer aðalatriði, að þar væri hver einn sveitfastur, er hann hefði samtals unnið lengst. Með því hygg jeg, að ólíkt meira rjettlæti, en nú á sjer stað, hefði komist á gagnvart fæðingarhreppnum.