09.08.1915
Efri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

39. mál, fátækralög

Framsm. (Hákon Kristófersson):

Jeg hefi litlu við það að bæta, sem jeg sagði um þetta mál við 2. umr. Nefndin hefir komið fram með þrjár brtt., sem menn óskuðu við 1. umr. að gjörðar yrðu, og þær allar veigalitlar. Hin fyrsta brtt. fer í þá átt, að „nefndra laga“ falli burtu úr 1. gr. 2. brtt. er þýðingarmeiri. Samkvæmt henni á, á eftir orðinu „sveitafelagi“ í 2. gr. að koma: „5 ár eða lengur“, og er þetta sett til tryggingar því, að maður eigi þar sveitfesti, sem hann hefir dvalið lengst samfleytt, þ. e. að skilja, eins og jeg hefi áður tekið fram, að þar eigi maður sveit, er hann hefir dvalið lengur en 5 ár, þó áður hafi verið en hann varð styrksþurfi. Eða með öðrum orðum, að til sveitfesti þurfi minst 5 ára samfleytta dvöl. 3. brtt. er gjörð til þess að koma 36. og. 37. gr. fátækralaganna í samræmi við frv. — Jeg treysti því, að háttv. deild taki þessum brtt vel og samþ. frv. þannig breytt: