07.08.1915
Efri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

89. mál, kosningaréttur og kjörgengi

Eiríkur Briem:

Eins og mönnum er kunnugt, þá mæla lög svo fyrir, að karlmenn eru skyldugir til að taka á móti kosningu til sveita- og bæjarstjórna, hvort sem þeim er það ljúft eða leitt. Þetta álít jeg mjög svo ranglátt. Það getur vel verið, að þeir tímar hafi eitt sinn verið, að þetta væri nauðsynlegt, en mjer finst nú vera kominn tími til að breyta þessu. Það er ekkert rjettlæti í því, að sumir menn skuli vera skyldir til að vinna mikinn hluta æfi sinnar í almenningsþágu borgunarlaust, þar sem aðrir þurfa ekki annað að gjöra en sitja hjá og setja út á starfið. Jeg álít, að miklu betra væri, að engan mann væri hægt að kveðja til starfsins, nema með hans eigin vilja, og full borgun kæmi fyrir. Það er hart að þurfa að verja þeim kröfum, sem menn nauðsynlega þurfa til að framfleyta heimili sínu og skylduliði, í annara þarfir, án þess að fá nokkurt endurgjald. Þetta kemur hart niður á karlmönnum, en harðara kæmi það niður á kvenfólkinu. Konan á oftast enn óhægra með að leggjast undir höfuð þau störf, sem hún þarf nauðsynlega að vinna á heimilinu. Hjer er ekki um jafnrjetti að ræða, meðal annars af því, að konan hefir ekki það fjárforræði, sem maðurinn hefir. Jeg veit dæmi til þess, að svo hart var lagt að manni, að takast á hendur oddvitastarf í einni sveit, að hann sá þann kost vænstan að flýja úr sveitinni. En þetta getur konan ekki. Hún getur ekki flúið að heiman; hún hefir ekki fjárráðin. Og það er ekki rjett af því opinbera, að knýja hana frá heimili sinu, þar sem hún ef til vill hefir margra barna að gæta, til þess að vinna að þeim störfum, sem hlytu, ef hún er samviskusöm kona, að taka mikinn tíma.