07.08.1915
Efri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

89. mál, kosningaréttur og kjörgengi

Karl Finnbogason:

Jeg leyfi mjer að benda á það, út af ræðu háttv. 1. kgk. þm. (E. B.), að enginn er skyldur að sitja i bæjar- eða sveitarstjórn, nema eitt tímabil í senn, og hver maður á síðan rjett á jafn löngu fríi.

Ekki virðist ósanngjarnt, að hið sama gildi í þessu efni um konur sem karla, því rjettindi og skyldur ættu jafnan sem mest að fylgjast að. Skyldan til að taka við kosningu til sveitastjórna hefir vafalaust verið lögð á menn til að tryggja það, að hæfustu menn fengjust til starfsins. En jeg verð að telja það rjett, að ef karlmenn hafa þessa skyldu, þá verði kvenfólkið líka að hafa hana, því engu minni ástæða er til að tryggja það, að hæfustu kvenmenn fáist til starfsins en hæfustu karlmenn.

En þyki hart og ósanngjarnt að skylda menn til þessa starfs, þá mætti benda á þá miðlun í málinu, að karlmenn yrðu leystir frá skyldunni, sem nú hvílir á þeim í þessu efni, og konum ekki lögð hún á herðar. Það væri jafnrjetti. Og því síður hættulegt að losa menn við skylduna, sem nú er um fleiri að gjöra en áður var.