07.08.1915
Efri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

89. mál, kosningaréttur og kjörgengi

Flutnm. (Björn Þorláksson):

Jeg vildi að eins gjöra stutta aths. út af ræðu hv: 1. kgk. þm. (E. B.). Mjer fanst hann gjöra full mikið úr þessari skyldu karlmanna að taka við kosningu. Nefndi hann þar eitt dæmi um mann, er flúið hefði úr sveit sinni, til að komast hjá því, að verða oddviti. Þetta eina dæmi sannar í raun og veru ekki neitt, og er alveg þýðingarlaust í þessu sambandi. Hann taldi þessa skyldu mundu koma harðar niður á kvenfólkinu, ef hún væri lögð þeim á herðar. Jeg játa að svo gæti verið, ef konan væri neydd til að taka við kosningu, en hefði stórt heimili og margra barna að gæta. En jeg efast um, að nokkrum detti i hug, að til slíks geti komið í framkvæmdinni. Ef kona, sem annars þykir hæf til starfsins, skorast undan og ber við heimilisástæðum sínum, og ef menn sjá, að þær ástæður eru rjettmætar, þá verður hún vitanlega leyst undan starfinu. Það dettur engum i hug, að neyða konu með fjölment heimili og fjölda barna til slíks starfs. En ef konum er með lögum heimilað að skorast undan kosningu, þá er hætt við, að það verði til þess, að þær lakari veljist frekar til verksins.

Háttv. þm. Seyðf. (K. F.) svaraði því fyrir mig, er háttv. 1. kgk. þm. (E. B.) gjörði svo mikið úr því, hvað menn yrðu að sitja lengi í þessum nefndum. Jeg fæ ekki sjeð, að það sje svo ýkja lengi. Menn fá að vera lausir i 6 ár, þegar þeir hafa starfað í 6 ár, og virðist það mjög sanngjarnt. En það verður að vera borgaraleg skylda allra, karla og kvenna, að vinna að þessum störfum, þegar þeirra þarf við, og á enginn að geta skorast þar undan. Háttv. 1. kgk. þm. (E. B.) kvartaði yfir því, að menn yrðu að starfa endurgjaldslaust. Þetta er raunar ekki alls kostar rjett, því aðalmaður hreppsnefndanna, oddvitinn, fær laun og innheimtumennirnir sömuleiðis. En annars eru sveitafjelögin ekki svo efnum búin, að þau geti goldið fullkomið gjald fyrir alt, sem þau þurfa að láta vinna fyrir sig.